„Hvernig varstu klædd?“

Jokka lýsti sinni eigin reynslu.
Jokka lýsti sinni eigin reynslu. mbl.is/Hari

Þolendur kynferðisofbeldis upplifa gjarnan saklausa spurningu eins og „hvernig varstu klædd?“ sem ásökun og skammast sín fyrir að þurfa að segjast hafa verið undir áhrifum áfengis. Þetta segir Jokka G. Birnudóttir, starfskona hjá Aflinu – samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi.

Hún flutti erindi á ráðstefnunni: Þögnin, skömmin og kerfið, sem fór fram í Háskólanum í Reykjavík í gær, en þar var fjallað um nauðgun í víðu samhengi.

Jokka hefur sjálf orðið fyrir kynferðisofbeldi og lýsti sinni reynslu á ráðstefnunni. Hún sagði frá því þegar hún gekk inn á lögreglustöðina í litla bæjarfélaginu sem hún bjó í og lagði fram kæru á hendur manninum sem braut á henni. Það kom fát á lögreglumanninn og kallaður var til lögreglumaður að sunnan til að fara yfir vitnisburð hennar. Heilt ár leið frá því að hún lagði fram kæruna og þangað til maðurinn var kallaður í skýrslutöku. Sálfræðingur hennar hafði þá ítrekað spurt hvort ekki væri eitthvað að gerast í málinu.

Frétt mbl.is: Upplifa skömm og óttast viðbrögðin

Jokka fékk þó engar upplýsingar um framgang mála hjá lögreglunni og það var ekki fyrr en gerandinn sjálfur hringdi í hana og spurði hvers vegna hún væri að þessu að hún frétti að hann hefði verið kallaður inn. Vegna seinagangsins fyrndist mál Jokku hins vegar og það var sett ofan í skúffu.

Jokka hefur í starfi sínu hitt marga þolendur kynferðisofbeldis sem hugsa: „Hvað ef þetta var mér að kenna?“ Þess vegna eru spurningar um klæðaburð og drykkju oft ásakandi í hugum þeirra. Það hefur lítil áhrif þó hún reyni að útskýra fyrir þolendum að þessar spurningar séu nauðsynlegar vegna rannsóknar málsins.

Frétt mbl.is: Lögregla pressar á þolendur að kæra

Jokka segir biðina í kæruferlinu þolendum oft erfiða. Þeir séu alltaf að bíða eftir næsta skrefi og halda í vonina um að ákært verði í málinu. Það gerist hins vegar ekki alltaf og þá berst þeim bréf um að sannanir hafi ekki verið nógu miklar. Slík bréf berast þolendum oft áður en réttargæslumanni er tilkynnt um niðurstöðuna og getur hann því ekki undirbúið þolandann.

Jokka kallar eftir breytingum á þessu verklagi, enda upplifi þolendur sem fá slíkt bréf gjarnan að þeim sé ekki trúað. Hún spyr hvort ekki mega gefa hverjum og einum korters viðtal þar sem þessi niðurstaða er útskýrð. Að viðkomandi sé gert grein fyrir því að honum sé trúað, en sannanir séu einfaldlega ekki nægar.

Frétt mbl.is: Úthýst úr bæjarfélaginu eftir nauðgun

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sem einnig flutti erindi á ráðstefnunni, sagði þetta vera raunhæfan möguleika sem væri í skoðun. Hún sagði miklar áherslu- og skipulagsbreytingar standa yfir hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Embættið væri að fara úr því að vera hefðbundin valdastofnun í að vera þjónustustofnun. Þá sagði Sigríður Andersen dómsmálaráðherra í sínu erindi að verið væri að útbúa rafrænt kerfi sem gerði brotaþola kleift að fylgjast með ferli kærumáls síns hjá lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert