Maðurinn sem bjargaði áramótunum

Sveinn bjóst ekki við því að þurfa að fagna nýju …
Sveinn bjóst ekki við því að þurfa að fagna nýju ári ofan í holu þegar hann mætti fyrst á staðinn. Mynd/Sveinn Þórarinsson

Sveinn Þórarinsson, starfsmaður Veitna, er maðurinn sem bjargaði áramótunum. Að minnsta kosti áramótum íbúanna í Bakkaseli í Breiðholti þar sem fór í sundur heitavatnslögn á gamlársdag vegna tæringar. Ekki einu sinni heldur tvisvar, með þeim afleiðingum að heitt vatn fór af á þriðja tug íbúða. Tímasetningin var ansi bagaleg því gamlársdagur er sá dagur ársins sem hvað mest er notað af heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu og var í raun sett met í heitavatnsnotkun síðasta dag liðins árs. 

Sveinn starfar á verkstæði Veitna og gengur bakvaktir, vinnur við heita vatnið. Hann var á bakvakt á gamlársdag og kom það því í hans hlut að sinna kallinu þegar það kom um klukkan ellefu fyrir hádegi. „Við vinnum yfirleitt saman, heitt vatn og kalt vatn, eins og í þessu tilfelli þá var ég með kaldavatnsmanninn, hann Einar Örn, með mér,“ segir Sveinn í samtali við mbl.is

Sveinn rétt komst heim í sturtu og mat áður en …
Sveinn rétt komst heim í sturtu og mat áður en næsta útkall kom. Hér er hann ásamt konunni sinni, Sigríði Láru. Mynd/Sveinn Þórarinsson

Þar sem lögnin fór í sundur í tvígang voru útköllin tvö, en þegar það fyrra kom bjóst Sveinn við auðveldu verki sem hægt væri að ljúka á skömmum tíma. „Maður bjóst við því að þetta yrðu tveir til þrír tímar, en við lentum í erfiðum aðstæðum. Þurftum að skrúfa upp trépall, taka burtu handrið og svo var þarna háspennuvír líka,“ segir Sveinn og því þurfti að gæta fyllstu varúðar. „Við þurftum að grafa okkur inn að lögninni sem lá frekar djúpt, þetta var um einn og hálfur metri,“ útskýrir hann.

„Pabbi, hvenær kemurðu heim?“

Sveinn hafði búist við komast heim skömmu eftir hádegi og geta þá haldið áfram að undirbúa áramótin með fjölskyldunni, þrátt fyrir að vera á bakvakt. „Ég bjóst við að komast að kaupa rakettur með strákunum mínum. Þeir voru að senda mér sms allan daginn og spyrja: „Pabbi, hvenær kemurðu heim? Hvað ertu að gera?“ Og fleira í þeim dúr,“ segir Sveinn, en hann á þrjá syni. „Ég gat heldur ekkert sprengt með þeim um kvöldið, þannig við fórum á nýársdag upp að Rauðavatni og sprengdum þar aðeins.“

Margir gáfu sig á tal við viðgerðarmennina og buðu þeim …
Margir gáfu sig á tal við viðgerðarmennina og buðu þeim upp á kaffi og bjór. Mynd/Sveinn Þórarinsson

Verkinu lauk ekki fyrr en rúmlega átta og Sveinn var að koma heim til sín um hálfníu. Þar voru tíu manns í mat, en ákveðið var að bíða með matinn þar til húsbóndinn kæmi heim. „Ég var alltaf að verða búinn en svo teygðist þetta og teygðist.“

Faðmaði kaldavatnsmanninn á miðnætti

Sveinn rétt náði að skella sér í sturtu og borða með fjölskyldunni áður en næsta útkall kom rétt fyrir klukkan tíu um kvöldið. Þá hafði sama heitavatnslögnin farið í sundur á öðrum stað. „Tæringin var aðeins meiri en við héldum, en það sem við gerum í svona viðgerðum er að bráðabirgðatengja. Það var svo rosalega kalt og það má ekki vera svona lengi stopp út af hita í stéttum og svo voru húsin orðin köld. Hanskarnir mínir og fötin voru orðin frosin,“ segir hann til að gefa gleggri mynd af kuldanum, en um 10 stiga frost var á þessum tíma.

Þegar fólk byrjaði að skjóta upp flugeldum kom smá babb …
Þegar fólk byrjaði að skjóta upp flugeldum kom smá babb í bátinn, enda hættu viðgerðarmennirnir að geta talað saman. Mynd/Sveinn Þórarinsson

Seinna verkinu lauk ekki fyrr en eftir miðnætti og Sveinn kom heim þegar nýtt ár var gengið í garð, um klukkan korter í eitt. Hann fagnaði því nýju ári hálffrosinn ofan í holu í Breiðholtinu. „Ég faðmaði kaldavatnsmanninn í staðinn fyrir konuna klukkan tólf,“ segir hann hlæjandi.

Svo undir lokin, þegar fólk var byrjað að sprengja þá sköpuðust smá vandræði hjá okkur. Það var svo mikill hávaði að við gátum ekki talað saman. Svo komst ég ekki strax í burtu á bílnum því það voru skottertur allt í kringum okkur, en þetta var stuð,“ segir hann léttur í bragði. Það var ekki fyrr en húseigandi sá aumur á viðgerðarmanninum sem húkti í bíl sínum og færði til tvo bíla að Sveinn komst leiðar sinnar.“

Einn íbúi kom með kippu af bjór

Hann segir fólkið í götunni hafa verið áhugasamt um viðgerðarmennina og margir gáfu sig á tal við þá. Vorkenndu þeim jafnvel. Þakklæti var þó flestum efst í huga. „Fólk spurði af hverju við færum ekki heim, en ég benti á að þá yrði nú ansi kalt hjá því. Einn kom meira að segja með kippu af bjór. Svo voru krakkar í öllum gluggum, þeim fannst svo gaman að sjá gröfu vinna.“ Þá buðust einhverjir til að færa þeim félögunum kaffi eða heitt kakó svo þeir gætu yljað sér. „Það versta var að komast ekki upp til að kaupa sér mat eða neitt. Við unnum alveg sleitulaust.“

Sökudólgurinn. Sundurtærð heitavatnslögn.
Sökudólgurinn. Sundurtærð heitavatnslögn. Mynd/Sveinn Þórarinsson

Líkt og áður sagði fór vatn af á þriðja tug íbúða vegna bilunarinnar og voru íbúar því án vatns og hita lungann úr gamlársdegi og sumir langt fram á kvöld. „Fólk var án vatns allan þennan tíma og gat ekki farið í sturtu eða neitt. Eða vaskað upp eftir matinn. Þegar maður verður vatnslaus þá áttar maður sig á því hvað er fínt að hafa vatn,“ segir Sveinn kíminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert