Ókunnug fjölskylda rataði í myndasafnið

AFP

Myndir af ókunnugri fjölskyldu birtust skyndilega í stafrænu myndasafni hjá Karli Pétri Jónssyni þegar hann var að búa til myndasyrpur af liðnum aðfangadagskvöldum.  

Frá þessu greinir Karl Pétur í facebookfærslu. Þar segir hann að hann hafi notað hugbúnað frá Apple til að halda utan um stafræna ljósmyndasafnið sem telji 80 þúsund myndir og nái aftur til ársins 1998.

Apple hafi boðið honum að gera nokkrar syrpur af myndum frá liðnum aðfangadagskvöldum en þá kom í ljós að hann kannaðist ekki við fólkið á nokkrum myndanna. 

Sú eftirtektarverða undantekning var þó á, að myndirnar mínar frá aðfangadagskvöldi 2011 eru af einhverri allt annarri fjölskyldu en minni. Augljóslega íslenskri fjölskyldu, en ekki minni. Ókunnugt fólk. Þeirra einkalíf á röngum stað,“ skrifar Karl Pétur. 

Í ummælum við færsluna setur tæknifrömuðurinn Hjálmar Gíslason fram mögulega skýringu. Hann telur ólíklegt að um bilun hjá Apple sé að ræða.  

Ég ætla að leyfa mér að giska á að þetta sé ekki bilun í umræddri þjónustu heldur hafi þessum myndum fyrir slysni verið upload-að á þinn account á tæki þar sem þú varst skráður inn, annaðhvort gamlan síma eða tölvu sem aðrir hafa svo eignast, almenningstölvu þar sem þú hefur gleymt að skrá þig út eða ef einhver hefur tengt SIM-kortalesara eða USB-drif með þessum myndum við þína tölvu og eitthvað „auto-upload“ sett þær þarna inn,“ skrifaði Hjálmar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert