Upplifa skömm og óttast viðbrögðin

Svala Ísfeld greindi frá niðurstöðum rannsóknar sinnar.
Svala Ísfeld greindi frá niðurstöðum rannsóknar sinnar. mbl.is/Hari

Rauði þráðurinn í dómum í kynferðisbrotamálum þar sem þolendur eru stúlkur á barnsaldri, en yfir kynferðislegum lögaldri, er skömm, sektarkennd, sjálfsásökun og samviskubit stúlknanna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Svölu Ísfeld Ólafsdóttur, dósents við lagadeild Háskólans í Reykjavík, á öllum dómum Hæstaréttar í kynferðisbrotamálum þar sem þolendur eru stúlkur á aldrinum 15 til 18 ára.

Um er að ræða 32 dóma sem féllu á árunum 1920 til 2015. Enginn slíkur dómur féll þó fyrr en árið 1960. Meðalaldur stúlknanna sem brotið var á var 15,7 ár en gerendur voru á aldrinum 15 til 49 ára. 24 prósent þeirra voru sjálfir börn.

Svala hélt erindi á ráðstefnunni Þögnin, skömmin og kerfið sem fór fram í Háskólanum í Reykjavík í gær, en þar var fjallað um nauðgun í víðu samhengi.

Stúlkurnar ásökuðu sig sjálfar meðal annars fyrir að hafa farið í göngutúr eða þegið bílfar hjá ókunnugum mönnum. Einnig fyrir að hafa verið undir áhrifum áfengis. Þá höfðu einhverjar stúlknanna óhlýðnast foreldrum sínum og jafnvel verið refsað fyrir. Þá óttuðust stúlkurnar viðbrögð fjölskyldu, vina og almennings, þær óttuðust illt umtal og að verða fyrir aðkasti, fluttu jafnvel burt úr bæjarfélögum. Ein stúlkan, sem var 13 ára nauðgað af 17 ára pilti, óttaðist að verða fyrir aðkasti vegna fyrri reynslu. Málið var fellt niður og hún kölluð lygari, en brotið var kært gegn hennar vilja.

Svala sagði málin hafa borist til lögreglu með mismundandi hætti. Í flestum tilfellum voru það brotaþolar sjálfir eða aðstandendur sem kærðu en í nokkrum tilfellum voru það aðrir einstaklingar. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna hins vegar að flest málanna sem leiddu til sakfellingar komu inn á borð lögreglu fyrstu sólahringana eftir að brotið var framið. Í 39 prósent tilfella komu brotin umsvifalaust til kasta lögreglu þannig að ferlið frá verknaði til kæru var órofið. 62 prósent málanna höfðu komið inn á borð til lögreglu innan tveggja sólahringa frá verknaði. Eitt mál skar sig þó úr, en þar liðu fimm ár frá verknaði til kæru. Í því tilfelli ákvað brotaþoli að kæra eftir að fjölmiðlaumfjöllun birtist um óeðlileg samskipti mannsins við unglingsstúlkur.

Í rannsókn Svölu kemur fram að dómum í kynferðisbrotamálum hafi farið fjölgandi upp úr 1990 í kjölfar máls Hverfisgötunauðgarans svokallaða. Hann nauðgaði einni konu og gerði tilraun til að nauðga annarri sömu nóttina. Lögregla kom að honum og stoppaði af. Honum var hins vegar ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi og almenningur reis upp. Þá þótti ekki nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að menn væru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í slíkum málum. Lögunum var hins vegar breytt í kjölfar máls Hverfisgötunauðgarans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert