Kveikt í þrettán gámum og tunnum

Slökkviliðsmenn á höfuðborgarsvæðinu þurftu að bregðast við fjórtán útköllum vegna …
Slökkviliðsmenn á höfuðborgarsvæðinu þurftu að bregðast við fjórtán útköllum vegna elds í gærkvöldi og nótt. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er óhætt að segja að í nógu hafi verið að snúast hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í gærkvöldi og í nótt en á tímabilinu frá 21 í gær og til klukkan 2 í nótt voru fjórtán útköll vegna elds, þar af þrettán í blaðagámum og ruslatunnum.

Eitt brunaútkallið var vegna elds sem kviknaði í kyrrstæðum jeppa á Seltjarnarnesi. Ekki er talið að um íkveikju hafi verið að ræða í því tilviki.

Aðra sögu er að segja um ruslagámana og tunnurnar sem slökkviliðið þurfti að slökkva í um allt höfuðborgarsvæðið í gærkvöldi og nótt. Greiðlega gekk að slökkva eldana en í einu tilviki var hætta á að eldurinn bærist í byggingar. Kveikt var í ruslatunnu á tjaldsvæðinu í Laugardal í Reykjavík í nótt og hefði eldurinn getað borist í útisalerni sem eru þar í grennd. Vegfarandi brást hins vegar hratt við og dró logandi tunnuna frá salernishúsinu og kom þar með í veg fyrir útbreiðslu eldsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu eru íkveikjur sem þessar því miður algengar á þrettándanum. Sömu sögu er að segja frá föstudagskvöldinu og nóttinni, þá var einnig tilkynnt um eld í mörgum gámum og tunnum. „Þetta er hvimleitt. Af þessu kemur reykur og þetta er eignatjón,“ segir vaktstjóri hjá slökkviliðinu í samtali við mbl.is í morgun.

Skemmdarverk um alla borg

Hér má sjá sýnishorn úr dagbók lögreglunnar um tilkynningar um eld í nótt og gær:

Kl. 21:50, tilkynnt um skemmdir á bifreið í Vesturbænum af völdum kínverja. Ekki vitað hverjir voru að verki. 

Kl. 22:12, tilkynnt um eld í gámi í Austurbænum. Slökkvið kallað út og slökkti það eldinn flótt og vel. Ekki vitað hverjir voru þarna að verki. 

Kl. 22:29, tilkynnt um eld í ruslagámi í Austurbænum. Slökkvilið kom á vettvang og slökkti eldinn en gámurinn er mikið skemmdur. 

Kl. 23:37, tilkynnt um eld í blaðagámi í Austurbænum. Lögregla og slökkvilið á vettvang, minni háttar eldur sem var slökktur strax. 

Kl. 00:08, tilkynnt um eld í blaðagámi í Austurbænum, slökkvilið á vettvang og slökkti eldinn. 

Kl. 00:31, tilkynnt um eld í girðingu og gróðri við skóla í Hafnarfirði. Slökkvilið á vettvang og slökkti eldinn, litlar skemmdir. 

Kl. 01:43, tilkynnt um að verið sé að sprengja póstkassa við hús í Breiðholti. Talið að þrír piltar séu þarna að verki. 

Kl. 01:50, tilkynnt um eld í gámi í Breiðholti, lögregla og slökkvilið á vettvang. 

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fór í fjórtán útköll vegna elds í gærkvöldi …
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fór í fjórtán útköll vegna elds í gærkvöldi og í nótt. Í þrettán tilvikum hafði verið kveikt í blaðagámum og ruslatunnum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert