Sagði satt og var kýldur í andlitið

Úlfar Viktor Björnsson var kýldur í andlitið í gær fyrir …
Úlfar Viktor Björnsson var kýldur í andlitið í gær fyrir að vera samkynhneigður. Hann er ekki reiður árásarmanni sínum heldur svekktur og sár út í samfélagið. Ljósmynd/Facebook

„Þetta hefur alltaf legið í loftinu finnst mér. Ég hef alveg oft fengið alls konar skítkast og leiðinleg niðrandi ummæli. Mér finnst ég í raun alltaf hafa verið að bíða eftir því að upplifa líkamlegt ofbeldi líka.“

Svona lýsir Úlfar Viktor Björnsson viðbrögðum sínum við líkamsárás sem hann varð fyrir í miðbæ Reykjavíkur í nótt. Ráðist var á hann sökum kynhneigðar.   

„Ég var að labba niður Laugaveginn með vini mínum, við vorum á leiðinni heim í leigubíl og þá kemur þessi maður á móti okkur, hann var með öðrum strák, og hann spyr mig: „Ertu hommi?““

Úlfar svaraði játandi, enda sá hann enga ástæðu til að svara öðruvísi, og í kjölfarið fékk hann krepptan hnefa mannsins beint í andlitið.

„Ég vankaðist og fékk blóð í munninn. Strákurinn sem var með honum kippti honum í burtu, áður en hann myndi veitast meira að mér, og strákurinn sem ég var með hann bara fraus og áttaði sig ekki á því sem gerðist fyrr en eftir á, þegar hann hughreysti mig alveg helling.“

Sjálfur fékk Úlfar mikið sjokk við höggið. „Það sem var hvað verst við þetta var hvað mér brá mikið.“

Ekki reiður árásarmanninum 

Úlfar sagði frá líkamsárásinni á Facebook-síðu sinni og þar greinir hann frá því að hann sé ekki reiður út í manninn sem kýldi hann, heldur er hann sár og svekktur út í samfélagið í heild sinni.

„Því við erum að leyfa þessu hatri að grasserast. Hvers vegna? Því við höldum að svona geti ekki ennþá verið að eiga sér stað árið 2018, og það á Íslandi. Við lítum framhjá þessu og umræðan er orðin hálfpartinn stöðnuð. Það sem er sorglegast af öllu er að ég hef alltaf átt von á þessu - og ég hef alltaf vitað að það hlaut að koma fljótlega að fyrsta högginu. Og einmitt þessi hátterni finnst mér endurspegla þjóðfélagið okkar talsvert. Við höfum staðnað gífurlega. Við teljum okkur trú [um] að hér ríkja [sic] engir fordómar því við erum jú ein [sic] af fremstu ríkjum heims í jafnréttisbaráttunni. Hér á allt að vera með felldu,“ skrifar hann á Facebook.

Með því að segja frá vill hann halda umræðunni á lofti. „Svo að þetta sé ekki að gerast, svo að fólk grípi inn í.“

Úlfar segir að hann verði undantekningarlaust fyrir áreitni ef hann er staddur í miðbænum eftir miðnætti. „Ég fæ yfirleitt alltaf komment út á útlit mitt, að ég sé samkynhneigður, að ég sé kvenlegur, að ég sé í kvenlegum fötum eða málaður.“

Úlfar hefur verið mjög opinskár um kynhneigð sína og hefur þurft að láta ýmislegt yfir sig ganga í gegnum tíðina. „Alveg frá því ég kom út úr skápnum og líka „way back“ í rauninni. Mamma var alltaf bara að bíða eftir því að ég kæmi út. Það fer ekkert fram hjá mörgum að ég sé samkynhneigður og fólk leyfir sér að segja ýmsa hluti og aðrir verða svæsnari,“ segir Úlfar. Atvikið í gærkvöldið hafi hins vegar verið það alversta sem hann hafi lenti í, að minnsta kosti líkamlega.

„Ég get ekki gert þetta einn“

Úlfar starfar með unglingum í félagsmiðstöð og hann er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að auka hinsegin fræðslu í grunnskólum. „Ég hef heyrt alveg ógeðsleg ummæli og hef fengið sting í hjartað. Þetta er enn þá rosalega mikið vandamál, líka hjá ungum krökkum.“

En hvað er hægt að gera til að uppræta þá fordóma sem ríkja í íslensku samfélagi gagnvart samkynhneigðum og hinsegin fólki almennt?

„Úff, þetta er stór spurning. Við þurfum að vera meðvituð, passa hvert annað og hefja fræðsluna fyrr. Eins og staðan er núna er ég ekkert rosalega bjartsýnn, eftir þessa reynslu í gær, en ég vil trúa því að við getum komist lengra með þetta og ég mun halda áfram að berjast. En ég verð að fá hjálp, ég get ekki gert þetta einn,“ segir Úlfar.

Hann er meyr yfir þeim gríðarmikla stuðningi sem hann hefur fengið frá því að hann tjáði sig opinberlega um reynsluna í dag. „Ég var rosalega hikandi hvort ég ætti að birta þetta en ég ákvað að gera það því mér fannst þetta þurfa að komast í umræðuna.“ Hann hefur fengið fjölda skilaboða og símtala, frá vinum sem og ókunnugum. „Ég er ótrúlega þakklátur.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert