Það er von í augum fólks

Íslenska sendinefndin varð vitni að sameiningu fjölskyldu í Suður-Súdan. „Það …
Íslenska sendinefndin varð vitni að sameiningu fjölskyldu í Suður-Súdan. „Það var mikil gleði og allir á staðnum urðu mjög hrærðir. Við vorum eiginlega með tárin í augunum, þetta var mjög látlaust og fallegt,“ segir Kristín. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

„Þetta var áhrifamikið,“ er það fyrsta sem Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins, segir. Hún er nýkomin heim úr vettvangsferð til Suður-Súdans sem hún fór í ásamt Atla Viðari Thorstensen og Þorkeli Þorkelssyni ljósmyndara. 

Flóttamenn í eigin landi

„Landið er jafnstórt og Frakkland og þarna búa um tólf milljónir manns og um helmingur þeirra er á flótta, annaðhvort á leið til annarra landa eða á flótta innanlands. Þetta eru flóttamenn í eigin landi en þarna eru ættbálkaátök. Þetta er nokkuð flókið ástand í þessu nýjasta lýðveldi heimsins og víða nokkuð langt í land,“ segir Kristín, en Suður-Súdan var viðurkennt sjálfstætt ríki árið 2011.

Eftir langa fjarveru er fjölskylda sameinuð. Stundin þegar amman strýkur …
Eftir langa fjarveru er fjölskylda sameinuð. Stundin þegar amman strýkur um hendur ástvinar er tilfinningaþrungin. Á meðan fylgist nýtt barnabarn með af athygli. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

„Þegar maður hittir Suður-Súdanana sjálfa er alveg ótrúlegt að sjá von í augum fólks. Og fólk er svo duglegt þarna og nýtir allt sem það getur til að lifa af. Það byggir sinn leirkofa með stráþaki og lífið gengur út á það að ná sér í mat og vatn. Þarna komast aðeins tíu prósent barna í skóla. En það er brosað og dansað og fólk er glæsilegt, maður sér það koma gangandi út úr þorpum þar sem allt er í leir og ryki og það er glansandi fínt í skrautlegum klútum. Maður hugsar bara: þið eruð ótrúleg að standa upprétt og halda áfram með lífið þrátt fyrir öll þau vandamál sem að ykkur steðja, vandamál sem þið eigið ekki sjálf sök á.“

Kætin leynir sér ekki enda gleðin mikil að hitta ástvini …
Kætin leynir sér ekki enda gleðin mikil að hitta ástvini eftir að hafa verið aðskilin í eitt og hálft ár. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Grátið og faðmast

Á meðan íslenska sendinefndin var í landinu varð hún vitni að fallegum endurfundum fjölskyldu sem ekki hafði sést í eitt og hálft ár. „Þetta var mjög óvænt. Það var akkúrat að gerast þegar við vorum þarna að flugvél var að lenda með fimm manna hóp og fórum við með að taka á móti þeim. Þau voru að sameinast ættingjum sínum sem þau höfðu ekki séð síðan 2016. Það varð tilfinningauppnám. Það var mikil gleði og allir á staðnum urðu mjög hrærðir. Við vorum eiginlega með tárin í augunum, þetta var mjög látlaust og fallegt,“ segir Kristín og segir þetta ekki hafa verið eins og í bíómynd þar sem fólk hleypur í fangið hvert á öðru. „Það varð svo seinna hjá þeim spennufall og þau byrjuðu að gráta og faðmast og syngja og fóru að kyssa og faðma okkur öll.“

Ítarlegra viðtal er við Kristínu S. Hjálmtýsdóttur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um heimsóknina til Suður-Súdans. 

Fjölskyldufaðir þakkar Rauða krossinum fyrir að sameina fjölskyldu sína og …
Fjölskyldufaðir þakkar Rauða krossinum fyrir að sameina fjölskyldu sína og tekur í hönd Kristínar, framkvæmdastjóra Rauða krossins á Íslandi. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert