Eina ráðið að fá Þór

Varðskipið Þór.
Varðskipið Þór. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

„Þetta var eina ráðið því Baldur siglir ekki til Flateyjar því hann er í viðgerð en hann fer alltaf með vatn til eyjarinnar,“ segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps, um vatnsskort í Flatey. Um helgina dældi varðskipið Þór neysluvatni í tanka í Flatey vegna yfirvofandi vatnsskorts. Heimamenn höfðu óskað eftir aðstoð.

Tvær vatnsveitur eru í Flatey, svokallaður Grænagarðsbrunnur og hin er einkarekin. Föst búseta er í þremur húsum í Flatey. Tvö þeirra eru tengd Grænagarðsbrunni en þriðja húsið er tengt einkareknu vatnsveitunni sem og sumarhúsin í Flatey. Þau eru mikið notuð á sumrin og yfir hátíðisdaga þar með talin jólin sem hafði áhrif á vatnsforða eyjarinnar.

„Þessi staða kemur upp af og til,“ segir Ingibjörg en tekur fram að þetta hafi verið varúðarráðstafanir. Almennt er vatnið af skornum skammti og er ekki óþrjótandi auðlind í Flatey. Íbúar og gestir eyjarinnar eru því beðnir um að fara sparlega með það. Það er því ekki í boði af vera lengi í sturtu eða láta kalda vatnið renna eins og margir íbúar á landi gera gjarnan.   

Uppbygging taki mið að vatnsbúskap

„Straumurinn má ekki vera mikið meiri,“ segir Ingibjörg spurð um ferðamannastrauminn í Flatey. Í því samhengi nefnir hún að alla uppbyggingu á eyjunni verði að gera með hliðsjón af vatnsbúskapnum.

Vél Breiðafjarðarferjunnar Baldurs er biluð og hafa viðgerðir tafist. Viðgerðum er ekki enn lokið og ekki ljóst hvenær Baldur siglir aftur á nýju ári. Baldur sigldi dag­lega tvær ferðir yfir Breiðafjörðinn frá Stykk­is­hólmi til Brjáns­lækj­ar með viðkomu í Flat­ey. 

Breiðafjarðarferjan Baldur.
Breiðafjarðarferjan Baldur. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert