Hættur að verja óbreytt prófkjör

Halldór telur að það þurfi að breyta reglum um prófkjör.
Halldór telur að það þurfi að breyta reglum um prófkjör. mbl.is/Ómar Óskarsson

Halldór Halldórsson, fráfarandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, telur að sjálfstæðismenn þurfi að breyta prófkjörsreglum sínum, meðal annars til að koma í veg fyrir að þrír karlmenn skipi efstu sætin, líkt og ítrekað hefur gerst. Þetta kom fram í viðtali við Halldór í kvöldfréttum RÚV. Sagðist hann hafa verið talsmaður óbreytts prófkjörs og varið það í fjölmörg ár, en hann væri nú hættur því.

Sjálfstæðisflokkurinn mun halda svokallað leiðtogaprófkjör í lok janúar þar sem kosið er á milli frambjóðenda í leiðtogasæti listans, en uppstillingarnefnd sér um að velja í önnur sæti.

Halldór sagði í samtali við RÚV að hann væri hlynntur leiðtogaprófkjöri en hann væri ekki hlynntur aðferðinni við að velja í sætin fyrir neðan. Honum hefði hugnast almennt prófkjör betur en flokkurinn þyrfti að fara að hugsa hvernig nota ætti prófkjörin í framtíðinni. Það hefði gerst bæði í borginni og í landsmálum að karlmenn hefðu raðast í þrjú efstu sæti á lista, en reglum þyrfti að breyta til að koma í veg fyrir það.

Aðeins tveir hafa lýst yfir fram­boði í leiðtoga­kjör­inu, en það eru bo­rgar­full­trú­arn­ir Áslaug Friðriks­dótt­ir og Kjart­an Magnús­son. Eyþór Arnalds, fyrrverandi oddviti sjálfstæðismanna í Árborg, er einn þeirra sem hafa verið nefndir í tengslum við leiðtogakjörið, en hann hefur ekki gefið upp hvort hann hyggst gefa kost sér.

Nokkrir aðrir sem orðaðir höfðu verið við kjörið hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér, en má þar nefna Unni Brá Konráðsdóttur, fyrrverandi forseta Alþingis, og Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóra flugvallarsviðs Isavia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert