„Erum ekki að fara að láta hatrið vinna“

Úlfar Viktor Bjarnason deildi reynslu sinni af því að kýldur …
Úlfar Viktor Bjarnason deildi reynslu sinni af því að kýldur í andlitið fyrir að vera samkynhneigður á Facebook. Hann segir viðbrögðin við færslunni miklu meiri en hann átti von á. Ljósmynd/Facebook

Hátt í þrjú þúsund manns hafa deilt færslu Úlfars Vikt­ors Björns­sonar um líkamsárás sem hann varð fyrir sökum kynhneigðar í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt sunnudags. Rúmlega 700 manns hafa þá lýst yfir stuðningi við hann í athugasemdum við færsluna.

Úlfar Viktor segir í samtali við mbl.is viðbrögðin miklu meiri en hann átti von á. „Ég var hikandi að setja þetta inn, en ákvað að láta verða af því af því að mér finnst mikilvægt að þetta heyrist. Þetta er málefni sem þarf að tala meira um, en mér datt aldrei til hugar að þetta myndi ná svona langt. Ég er búinn að fá ótal margar kveðjur með hlýhug á Facebook við þessari færslu.“

Í færslu sinni greinir hann frá því hvernig hann hafi verið kýldur í andlitið fyrir að svara fyrirspurn um samkynhneigð sína játandi á gangi niður Laugaveg með vini.

 „Þetta hef­ur alltaf legið í loft­inu finnst mér. Ég hef al­veg oft fengið alls kon­ar skít­kast og leiðin­leg niðrandi um­mæli. Mér finnst ég í raun alltaf hafa verið að bíða eft­ir því að upp­lifa lík­am­legt of­beldi líka,“ sagði Úlfar Viktor í færslu sinni.

Hann segir langflesta sem haft hafi samband við sig vera að lýsa yfir stuðningi. „Alltaf þegar koma upp viðkvæm mál, eins og ákveðin tabúmál í samfélaginu, þá þarf maður að vera viðbúinn að fá ákveðna gagnrýni á sig.“ Hann hafi vissulega fengið einhverjar athugasemdir frá fólki sem sé ósammála, en það sé í miklum minnihluta. „Ég læt það ekkert á mig fá, því þau vega svo miklu þyngra öll jákvæðu og góðu kommentin og fallegu skilaboðin sem ég hef verið að fá.“

Fengið kveðjur frá Bandaríkjunum, Færeyjum og víðar

Viðbrögðin ná líka langt út fyrir vina- og kunningjahóp hans og raunar út fyrir landsteinana. „Ég hef líka fengið kveðjur að utan,“ segir Úlfar Viktor. „Ég hef fengið kveðjur frá Ítalíu, Færeyjum, Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar.“

Úlfar Viktor kveðst líka vera meyr yfir öllum þessum góðu orðum. „Ég hef grátið, af þakklæti mest megnis, og er þakklátur fyrir öll þessi góðu orð og það er greinilegt að við erum ekki að fara að láta hatrið vinna,“ segir hann.

„Við eigum að virða hvert annað og þurfum að sýna það í verki. Við þurfum líka að sýna börnunum okkar það og þurfum að kenna þeim að umburðalyndi sé númer eitt, tvö og þrjú í samskiptum. Við erum komin langt í jafnréttisbaráttunni, en henni er þó ekki að fullu lokið og við þurfum bara að halda áfram svo lengi sem þess er þörf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert