Vala íhugar að bjóða sig fram

Vala liggur nú undir feldi og metur hvort hún eigi …
Vala liggur nú undir feldi og metur hvort hún eigi að gefa kost á sér í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/Landsamband sjálfstæðiskvenna

Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands Sjálfstæðiskvenna, íhugar að bjóða sig fram í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, vegna sveitarstjórnarkosninganna í vor. Hún er að vega og meta stöðuna, en frestur til að skila inn inn framboði rennur út á miðvikudag.

„Þetta er stór ákvörðun og ég held að það sé gott að skoða allar hliðar á þessu máli. Svo er ég að ræða mitt nánasta fólk. Það er gott að heyra margar hliðar til að geta tekið góða ákvörðun,“ segir Vala í samtali við mbl.is.

„Ég hef áhuga á að taka þátt í stjórnmálum og hefði vilja fara í prófkjör. Það liggur samt ákveðið tækifæri í því að fara í leiðtogaprófkjör og auðvitað fer ég fram í það til að sækja sigur.“

Vala segist hafa hvatt konur til að taka þátt í stjórnmálum og hún verði því að gefa því gaum þegar hún sjálf er hvött áfram. „Það hafa margir komið að máli við mig frá því í haust en ég hef fundið sterkari meðbyr núna á síðustu dögum og vikum.“

Þegar blaðmaður bendir á aðeins tveir hafi staðfest framboð, tæpum tveimur sólarhringum áður en frestur rennur út segir Vala: „Ég held að það séu einhverjir sem eru enn að hugsa hvaða tækifæri felast í þessu og einhverjir sem hafa áhuga á því að koma nafninu sínu á framfæri og sýna að þeir vilja taka sæti á lista.“

Leiðatogaprófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fer fram þann 27. janúar næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert