Appelsínugul viðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið

Veðurútlit í fyrramálið. Spáin er verst fyrir höfuðborgarsvæðið á milli …
Veðurútlit í fyrramálið. Spáin er verst fyrir höfuðborgarsvæðið á milli klukkan sex og tíu.

Búast má við að mjög hvasst og hviðótt verði í efri byggðum á höfuðborgarsvæðinu þegar fólk heldur til vinnu í fyrramálið og börn í skóla. Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið.

„Þetta á aðallega við efri byggðirnar í Reykjavík, til dæmis Grafarholtið og Norðlingaholtið. Þar getur vindhraðinn farið upp í 25 metra,“ segir Þorsteinn Jónsson veðurfræðingur. Búast megi við mikilli rigningu og súld. Skyggni geti því orðið lítið og erfitt að fara á milli. „Við erum aðallega að hugsa um börn og eldra fólk sem er á ferðinni,“ segir hann.

„Hálkan verður þá vonandi farin á flestum stöðum, því annars getur þetta verið hættulegt.“ Þorsteinn segir Veðurstofuna vilja benda foreldrum, þar sem hvassast verður, á að fylgja börnum í skóla og fólki að fara varlega í umferðinni. „Það borgar sig líka að athuga að ekkert geti fokið og valdið tjóni,“ segir hann.

Veðurvefur mbl.is

Minni hætta sé á ferðinni innar í Reykjavík, þó að þar verði vissulega einnig hvassviðri og rigning. Veðurútlit er einnig slæmt í nágrenni höfuðborgarinnar, m.a. á Kjalarnesinu og á helstu vegum eins og Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbrautinni. „Það má búast við að hviður geti náð allt að 35 m/s og það getur orðið fokvandamál ef jólatré og skreytingar eru á ferðinni.“ Þá segir Þorsteinn von á hvassviðri á Reykjanesbrautinni allan morguninn.

Veðrið verður verst á milli klukkan 6-10 í fyrramálið, síðan dregur fljótlega úr því og verður orðið skaplegasta veður strax undir hádegi.

Hvassviðri verður einnig á Vesturlandi, en heldur hægara á norðvestanverðu landinu. Þar dregur þó einnig úr vindi er líður á daginn. Áfram verður hins vegar hvasst á austanverðu landinu fram á kvöld, ekki er þó útlit fyrir storm á því svæði nema mögulega á heiðarvegum.

Búast má við mikilli rigningu á Suðausturlandi, en þar getur orðið rask vegna lækja og áa sem kunna að bólgna út.

Búast má við ágætis veðri á miðvikudag, en á fimmtudag kemur ný lægð upp að landinu og kann hún að verða djúp, að sögn Þorsteins. „Það koma fleiri lægðir í vikunni og veðrið verður umhleypingasamt,“ segir Þorsteinn og kveður lægðirnar koma á færibandi á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert