Álagið dreifist á nokkur ár

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Fjölgun nýnema við háskóla vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs dreifist á nokkur ár þar sem framhaldsskólarnir styttu ekki allir námstímann á sama tíma. Hámarksfjöldi nýnema hefur verið aukinn í deildum Háskóla Íslands sem takmarka nemendafjölda.  

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að þar hafi verið ákveðið að taka á móti fleiri nýnemum við deildir eins og lagadeild og læknadeild en áður. 

„Við höfum töluvert reynt að gera okkur grein fyrir þróun nemendafjölda við Háskóla Íslands næstu árin. Það er ljóst að fjölgunin sem verður vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs mun dreifast á nokkur ár og því koma ekki tveir árgangar í einu lagi í háskóla í haust eða næstu misseri.

Ástæður þess eru nokkrar. Í fyrsta lagi eru stórir framhaldsskólar að útskrifa tvöfalda árganga árin 2017, 2018 og 2019. Menntaskólinn í Reykjavík mun t.d. ekki útskrifa tvöfaldan árgang fyrr en 2019 en um 9% af nýnemum við HÍ koma frá MR.

Sama gildir um nokkra aðra stóra framhaldsskóla svo sem Fjölbrautaskólann í Breiðholti, Menntaskólann á Akureyri og Menntaskólann við Hamrahlíð þar sem mestu áhrifin ættu að koma fram árið 2019.

Í öðru lagi hefur það lengi verið möguleiki fyrir nemendur við allmarga framhaldsskóla að útskrifast á þremur árum.

Í þriðja lagi verður að skoða hvenær stúdentar skrá sig til háskólanáms eftir að þeir ljúka stúdentsprófi.

Samkvæmt okkar gögnum innrita t.d. 35% nemenda sig til náms við Háskóla Íslands almanaksárið eftir að þeir ljúka stúdentsprófi og 15% tveimur árum eftir stúdentspróf. Til að átta sig á þróun nemendafjölda við Háskóla Íslands næstu árin þarf einnig að skoða stærð fæðingarárganga, hlutfall nýstúdenta sem innrita sig í grunnnám við Háskóla Íslands og þróun nemendafjölda við skólann síðustu ár,“ segir Jón Atli.

Töluverð fjölgun en ekki holskefla

Hann segir að gert sé ráð fyrir töluverðri fjölgun nemenda næstu árin en ekki holskeflu.

„Við gerum þannig ráð fyrir um 1100 til 1400 fleiri nemendum við Háskóla Íslands vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs en að sá fjöldi dreifist á þrjú ár (2018, 2019 og 2020). En setja verður ýmsa fyrirvara um þróun nemendafjölda við Háskóla Íslands næstu árin þar sem ýmislegt hefur þar áhrif annað en stytting námstíma til stúdentsprófs. Það hefði t.d. getað orðið erfitt fyrir okkur að taka við slíkri aukningu strax eftir hrun þegar nemendafjöldinn óx verulega,“ segir Jón Atli.

Stúdentar frá Fjölbraut í Garðabæ.
Stúdentar frá Fjölbraut í Garðabæ. mynd/Gunnar Hólmsteinn Ársælsson

100 komast inn í lagadeild

Spurður um stöðuna núna segir Jón Atli að það sé einkum tvennt sem verið sé að skoða nánar á þessu vormisseri.

„Í fyrsta lagi erum við að athuga hvort við getum gert okkur nákvæmari grein fyrir þróun nemendafjölda við Háskóla Íslands t.d. með nánari samræðu við framhaldsskólana.

Í öðru lagi erum við að meta hvernig væntanleg aukning dreifist á deildir og svið skólans. Það er mögulegt að fjölgun nemenda hjá sumum deildum verði hlutfallslega meiri en ofangreindar tölur gefa til kynna.

Hér mun athyglin m.a. beinast að þeim deildum sem takmarka nemendafjölda. Hámarksfjöldi nýnema við lagadeild næsta haust hefur verið hækkaður töluvert (í 100 nemendur) og lítillega í læknadeild (í 50). Enn hefur ekki verið ákveðið hver hámarksfjöldinn verður fyrir 2019 en þar mun m.a. koma til skoðunar fjölgun nemenda vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs,“ segir rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson.          

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert