Björgunarsveitir kallaðar út

mbl.is/Kristinn Magnússon

Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi, samkvæmt upplýsingum frá Neyðarlínu, slökkviliði og lögreglu. Einkum er um fok á lausamunum að ræða, að sögn lögreglu á Suðurnesjum. 

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni eru engir minni bátar á sjó enda snarvitlaust veður á miðunum. Einum bát var komið til aðstoðar í gærkvöldi en hann hafði fengið veiðarfærin í skrúfuna. Áhöfn björgunarskipsins Hannesar Þ. Hafstein kom bátnum til hafnar í Sandgerði en ekkert amaði að skipverjum.

Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að björgunarsveitarmenn séu að störfum á höfuðborgarsvæðinu en þar hafa þakplötur fokið, ruslagámar farið af stað, svalahurð fauk upp á einum stað og síðan hafa girðingar brotnað og einnig ljósastaur í Kópavogi. Á Reykjanesi eru björgunarsveitir að störfum í Grindavík og Reykjanesbæ en á báðum stöðum hafa þakplötur fokið af húsum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert