Fljúgandi trampólín sjaldgæf í janúar

Björgunarsveitarmenn hjá trampólíni.
Björgunarsveitarmenn hjá trampólíni. Ljósmynd/Jónas Guðmundsson

Algengast er að tryggingamál þar sem hlutir á borð við garðhúsgögn, trampólín og grill fjúka og valda tjóni komi upp á haustin hjá tryggingafélögum.

Sjaldgæfara er að slík mál komi upp þegar komið er fram í janúar, að sögn Kjartans Vilhjálmssonar, framkvæmdastjóra einstaklingsráðgjafar og markaðsmála hjá TM.

Venjulega á ábyrgð eigenda

Spurður út í skaðabótaskyldu vegna tjóns af völdum slíkra hluta segir hann að venjulega sé það á ábyrgð þeirra sem eiga hlutina að ganga frá þeim með fullnægjandi hætti til að koma í veg fyrir að þeir fari af stað í óveðri.

Samkvæmt skaðabótareglum er það þó ekki virt eigandanum til sakar ef hann hefur gert ráðstafanir sem teljast góðar en veðurofsinn hafi verið slíkur að nánast ekkert hafi verið hægt að gera til að koma í veg fyrir tjón.

Slysavarnafélagið Landsbjörg að störfum í morgun.
Slysavarnafélagið Landsbjörg að störfum í morgun. Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Ófullnægjandi þegar á reynir 

Kjartan nefnir að tryggingamál verði helst snúin við að meta ábyrgð á tjóni þegar eigandi hlutarins telur sig hafa gert ráðstafanir, sem þegar á reynir voru algjörlega ófullnægjandi. „Sem betur fer er meirihluta svona mála ekki mjög flókinn lögfræðilega,“ segir hann.

Einnig nefnir hann að horfa þurfi á hvort veður hafi verið í samræmi við það sem búið var að spá, í málum sem þessum, eða hvort það hafi verið miklu verra.

Að sögn Kjartans er í einhverjum tilvikum hægt að gera strangari kröfur til fyrirtækja, ef hlutir eða annað í eigu þeirra veldur tjóni, til dæmis á byggingarsvæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert