Rætt um mengunarvalda í borgarstjórn

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. Mynd úr safni.
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Svifryksmengun í Reykjavík er orðin að alvarlegu heilsuspillandi vandamáli,“ sagði Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í umræðum um mengunarvalda á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur.

Hún vísaði í ræðu sinni til orða dr. Larry G. Anderson, bandarísks sérfræðings sem var fenginn hingað til lands til að rýna í gögn um loftgæði í Reykjavík og komst að því að svifryksmengun fer oftar yfir viðmiðunarmörk í Reykjavík en í Denver í Bandaríkjunum, sem er þriggja milljóna íbúa iðnaðarborg.

Hann var staddur hér á landi síðasta sumar og sagði þá í viðtali við RÚV að hið mikla magn svifryks í Reykjavík væri mjög dularfullt í ljósi þess að hér notum við endurnýjanlega orku til kyndingar og þungaiðnaður sé lítill.

Marta sagði að ástandið væri orðið grafalvarlegt og mætti að einhverju leyti rekja til þess að umferðarflæðið í borginni væri ekki nógu gott.

„Við höfum lagt til að greiða betur hér úr umferð og leysa þessa umferðartappa sem myndast hér í borginni, með fjölgun bíla sem standa í lausagangi og auka hér mengun. Meirihlutinn hefur aldrei viljað hlusta á það að bílar í lausagangi menga mikið og þeir gera allt til þess að fjölga þeim bílum, með því að neita að leysa umferðarvandann sem hefur skapast hér í borginni.“

Bílarnir mega ekki vera of margir

„Bílar eru mögnuð tæki, mögnuð tæki til að komast á milli staða, ég á sjálfur bíl og þekki það bara mjög vel. En þeir mega ekki vera of margir, umferðin má ekki vera of mikil og mengunin sem bílar valda má ekki vera heilsuspillandi, það er ósköp einfalt,“ sagði Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar og borgarfulltrúi Samfylkingar.

Hann var frummælandi umræðunnar og hafði áður bent á að mjög stór hluti af svifrykinu í Reykjavík stafaði af bílaumferð, auk þess sem hlutfall bifreiða á nagladekkjum í Reykjavík hefði hækkað síðustu ár, mögulega vegna aukins fjölda bílaleigubíla á götunum.

Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.
Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar. mbl.is/Rax

„Borgin þarf að standa sig vel í því að þvo og þrífa götur og það þarf að koma í veg fyrir neikvæð áhrif bílaumferðar. Ein leið til þess er að hægja örlítið á bílaumferðinni, reyna að minnka hana aðeins og reyna að koma í veg fyrir að hún bæði valdi spjöllum á götunum og valdi mikilli mengun,“ sagði Hjálmar.

Fundur borgarstjórnar stendur enn yfir og fylgjast má með því sem fram fer í beinni útsendingu á vef Reykjavíkurborgar.

mbl.is