52% kvarta yfir kyrrstæðum bílum

Bílar á akstri um Hellisheiði.
Bílar á akstri um Hellisheiði. mbl.is/Sigurður Bogi

Tæp 52 prósent ökumanna af Austurlandi segja að kyrrstæðar bifreiðar á akbrautum í dreifbýli trufli þá eða valdi þeim helst álagi við akstur.

Þetta kemur fram í niðurstöðum skoðanakönnunar um aksturshegðun almennings og viðhorf til ýmissa þátta í umferðinni sem Maskína gerði fyrir Samgöngustofu.

Prósentan er einnig há á meðal ökumanna af Vesturlandi, Vestfjörðum og Suðurlandi, eða á bilinu 45 til 47 prósent.

„Við gerum þessar kannanir á hverju ári en fórum ekki að spyrja út í þetta atriði fyrr en fyrir um tveimur árum síðan þegar það fór að bera töluvert á þessari hættu, að ökumenn voru að stöðva á vegum úti. Okkur þótti rétt að athuga hvort þetta væri að valda mikilli truflun,“ segir Einar Magnús Magnússon hjá Samgöngustofu.

Átta sig ekki á aðstæðum

Hann segir að tvennt spili inn í þegar kemur að þessum tilvikum í umferðinni. Annars vegar aukinn fjöldi vegfarenda sem átti sig ekki alveg á aðstæðum og hins vegar aukin umferð á vegum úti. „Fólk er að keyra inn í umhverfi sem kallar á athygli og það þarf stundum að slást um að halda athyglinni á veginum í stað þess að láta umhverfi og náttúrufegurð glepja sig.“

Að sögn Einars Magnúsar hefur Samgöngustofa í auknum mæli orðið vör við vandamálið og hefur hún fengið margar ábendingar frá fólki. Stofnunin hefur lagt áherslu á að uppfræða erlenda ferðamenn um hættuna sem stafar af þessu athæfi og bendir ökumönnum á að stoppa alls ekki á vegum nema í neyðartilfellum. „Við erum að undirstrika þetta mjög sterkt í okkar fræðslu.“

Umferð við Hólmsá á leið til Reykjavíkur.
Umferð við Hólmsá á leið til Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Þarf að bregðast hart við 

Spurður hvort þessi háa prósentutala hafi komið honum á óvart segir Einar Magnús að greinilega sé um mikla truflun og áreiti að ræða fyrir ökumenn. „Fyrst það er þetta stórt hlutfall sem nefnir þetta er full ástæða til að bregðast mjög hart og af ábyrgð við þessu,“ segir hann og bendir á að slys og óhöpp hafi orðið af þessum völdum undanfarin ár.

Hafa ber í huga varðandi könnunina að þegar svarendur völdu flokkinn „kyrrstæðir bílar á akbrautum í dreifbýli“ gátu þeir valið fleiri en einn möguleika en þegar þeir voru beðnir um að velja aðeins einn möguleika, eða truflun, kom í ljós að farsímanotkun veldur þeim mestri truflun. Það er í fyrsta skipti sem það gerist.

Flestir nefna skort á notkun stefnuljósa

Í niðurstöðum könnunarinnar þar sem hægt var að velja fleiri en einn möguleika kemur fram að flestir ökumenn telja að skortur á notkun stefnuljósa trufli sig eða valdi sér helst álagi við akstur, eða samtals 66,9 prósent. Flestir þeirra sem svöruðu þessu játandi búa á höfuðborgarsvæðinu, eða 70 prósent.

Næstflestir nefndu farsímanotkun annarra ökumanna, eða samtals 66,1 prósent.

61,4 prósent nefndu að of hægur akstur trufli þá eða valdi sér helst álagi og 41,5 prósent akstur á vinstri akrein.

Könnunin fór fram á netinu dagana 20. til 31. október í fyrra og voru svarendur 984 talsins á aldrinum 18 til 75 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert