Andlát: Jón Steinar Guðmundsson

Jón Steinar Guðmundsson
Jón Steinar Guðmundsson

Jón Steinar Guðmundsson, prófessor emeritus við Tækniháskólann í Þrándheimi (NTNU), er látinn eftir erfið veikindi. Hann varð sjötugur á gamlársdag.

Jón Steinar fæddist í Reykjavík á gamlársdag 1947. Hann var sonur hjónanna Guðmundar Hanssonar og Sigríðar Axelsdóttur.

Jón Steinar útskrifaðist með BSc-gráðu í efnaverkfræði frá Heriot-Watt-háskólanum í Edinborg 1973 og með doktorsgráðu í sömu grein frá Háskólanum í Birmingham árið 1977.

Hann starfaði við rannsóknir hjá Orkustofnun 1977-1981 og var yfirmaður jarðhitadeildar Stanford-háskóla 1981-1985. Árin 1982-1985 var hann dósent við skólann.

Árin 1986-1989 var Jón Steinar skólastjóri Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna.

Árið 1989 flutti Jón Steinar ásamt konu sinni Sigrúnu Guðmundsdóttur til Þrándheims í Noregi. Þar tók hann við stöðu dósents í olíuverkfræði við NTNU og var þar prófessor 1991 til 2014 er hann fór á eftirlaun.

Jón Steinar gegndi mörgum trúnaðarstörfum. Hann var meðal annars heiðursfélagi í Samtökum olíuverkfræðinga (SPE) og félagi í Norsku tækni- og vísindaakademíunni (NTVA). Þá sat hann í bæjarstjórn Þrándheims fyrir Hægri flokkinn 2003 til 2010.

Hann stofnaði nokkur fyrirtæki og seldi uppfinningar, m.a. til stórfyrirtækjanna Halliburton og Matsui.

Eftir hann liggur mikill fjöldi fræðigreina. Þegar Jón Steinar fór á eftirlaun skrifaði hann 400 síðna kennslubók í olíuverkfræði á ensku.

Jón Steinar og Sigrún, sem var prófessor í uppeldisfræði við NTNU, giftust 23. júní 1971. Þau eignuðust tvo syni, Guðmund Steinar og Magnús Ara. Báðir eru olíuverkfræðingar. Sigrún lést eftir erfið veikindi í júní 2003. Seinni kona Jóns Steinars heitir Rigmor Kvarme. Þau giftust 2009. Rigmor á dóttur og tvö barnabörn. Útför Jóns Steinars fer fram í Þrándheimi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert