„Dæmdur til að leiða minnihluta“

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar.
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/RAX

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, segir á facebooksíðu sinni að hann hafi varað Eyþór Arnalds við framboði í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík áður en hann frétti að Eyþór hefði ákveðið að gefa kost á sér.

Össur segist þannig hafa staðið léttklæddur í búningsklefa World Class og útskýrt „með litríkum hætti að hræðilegustu örlög í stjórnmálum heimsins væru að vinna leiðtogaprófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.“ Segir hann Eyþór hafa verið viðstaddan og hafa beðið kurteislega um skýringar á orðum flokksformannsins fyrrverandi.

„Ég útskýrði að sá einstaklingur væri dæmdur til að leiða minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur næstu fjögur árin og ömurlegra og valdaminna hlutskipti væri ekki hægt að hugsa sér,“ ritar Össur. Segir hann orð sín hafa leitt til þess að Eyþór varð hugsi.

Þegar Össur kom síðan úr gufubaði hafi það fyrsta sem hann frétti verið það að Eyþór hefði gefið kost á sér í leiðtogasæti Sjálfstæðisflokksins í borginni. Segist hann hafa ákveðið að segja ekki við Eyþór að hann hafi varað hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert