Ólafur tekur ekki slaginn

Ólafur Arnarson.
Ólafur Arnarson. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Arnarson hagfræðingur hyggst ekki gefa kost á sér í leiðtogakjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þetta tilkynnir hann á Facebook-síðu sinni í dag. Ólafur hafði lýst því yfir að hann væri að íhuga að bjóða sig fram eftir að skorað hefði verið á hann. Í færslunni á Facebook segir Ólafur að fyrir fram hafi hann ekki haft nein áform um framboð en hafi talið rétt að skoða þann möguleika eftir að fólk sem hann tæki mark á hefði hvatt hann til þess.

„Ég hef hugsað það gaumgæfilega hvort nú sé rétti tíminn fyrir mig að bjóða mig fram til þessa verks. Þetta er mjög persónuleg ákvörðun. Svona ákvörðun snertir ekki bara þann sem veltir fyrir sér framboði heldur líka fjölskyldu hans. Svo er nauðsynlegt að horfa til yfirstandandi verkefna og skuldbindinga,“ segir Ólafur og bætir síðan við að endingu:

„Að lokum varð það mín niðurstaða að ég hef of margar skuldbindingar vegna verkefna sem ég hef tekið að mér til að geta á þessari stundu gefið kost á mér í það krefjandi verkefni að leiða lista sjálfstæðismanna í borginni. Ég vona að Reykvíkingar fái öfluga leiðtoga á næsta kjörtímabili.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert