Vita ekki hvað varð um munina

Munir, sem gerðir voru upptækir af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en héraðsdómur dæmdi að ekki skyldi gera upptæka, finnast ekki hjá lögreglunni og rannsókn héraðssaksóknara hefur ekkert leitt í ljós um afdrif þeirra. Þá virðist enginn bera ábyrgð á hvarfi munanna. Þetta kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins um málið í dag.

Lögreglan gerði rassíu vegna kampavínsklúbbsins Strawberries og eiganda hans, Viðars Más Friðfinnssonar, í október 2013. Var meðal annars grunur um vændisstarfsemi og skattalagabrot, en Viðar var á endanum aðeins ákærður fyrir skattalagabrotin. Var hann fundinn sekur um þau um mitt síðasta ár og hlaut eins árs skilorðsbundinn dóm, auk þess að þurfa að greiða 242 milljónir í sekt til ríkissjóðs.

Greint var frá því í september árið 2016 að skartgripir hefðu horfið úr fórum lögreglu, en ákæru málsins var breytt þannig að hætt var við að fara fram á upptöku munanna sem höfðu horfið.

Munirnir hurfu úr fórum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Munirnir hurfu úr fórum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Golli

Í Fréttablaðinu í morgun er rætt við Ólaf Þór Hauksson héraðssaksóknara sem segir óæskilegt að þetta skuli geta gerst. Staðfestir hann að kærur Viðars um þjófnað á eigum sínum og framgöngu lögreglumanna við rassíuna hafi ekki leitt til ákæru.

„Það hafðist ekki uppi á þeim sem mögulega bar ábyrgð á því að þessir hlutir hurfu. Þeirri rannsókn var því hætt,“ er haft eftir Ólafi í Fréttablaðinu.

Þá sendi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu blaðinu yfirlýsingu þar sem verklag lögreglunnar við haldlagningu munanna er harmað. Ítrekað er að ekkert bendi til þess að um þjófnað sé að ræða, en ekki sé hægt að fullyrða með hvaða hætti munirnir hurfu. Verði verklagsreglur varðandi haldlagða muni skerptar í framhaldinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert