Völd og ábyrgð fara ekki saman

Guðlaugur Þór Þórðarson, settur dómsmálaráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, settur dómsmálaráðherra. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Þegar menn eru komnir niður á þetta plan er það í besta falli ekki trúverðugt,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, settur dómsmálaráðherra, í samtali við mbl.is spurður út í þau ummæli Jakobs Möllers, formanns dómnefndar, vegna skipunar fjögurra héraðsdómara, að hann teldi ráðherrann ekki hafa ritað bréf sem hann sendi dómsmálaráðherra og allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis þar sem vinnubrögð dómnefndarinnar eru gagnrýnd og bent á það sem betur megi fara þegar komi að skipun dómara.

Guðlaugur segir engan þurfa að velkjast í vafa um það hver hafi ritað umrætt bréf. „Það fer ekkert bréf með minni undirskrift án þess að ég ákveði hvað sé í því. Það er hins vegar ekkert leyndarmál að ég starfa þannig, hvort sem það er sem utanríkisráðherra, settur dómsmálaráðherra eða ef ég væri í öðrum embættum, að ég leita að sjálfsögðu til bestu sérfræðinga sem völ er á á hverjum tíma.“ Einkennilegt sé að reynt sé að gera þetta að aðalatriði málsins í stað þeirra athugasemda sem fram komi í bréfinu.

Sérstakt að gögnum sé haldið frá ráðherra

„Það sem ég vonast til að verði rætt, ekki aðeins í fjölmiðlum heldur einnig á Alþingi og ég rita bréfið til dómsmálaráðherra til þess að vekja athygli á því, er það sem ég tel vera annmarkana á þessu ferli og sem snýr að umræddum lögum. Ég fer nákvæmlega yfir þá staðreynd að ég fæ ekki í hendur fullnægjandi upplýsingar til þess að ég get lagt mat á vinnu nefndarinnar í samræmi við lögin.“

Þannig sé ekki ljóst hvert vægi einstakra umsækjenda hafi verið innbyrðis út frá þeim upplýsingum sem veittar hafi verið af dómnefndinni. Sama sé að segja um vægi viðtala og hvernig umsækjendur hafi staðið sig í þeim. Upplýsingar um heildstætt mat nefndarinnar liggi heldur ekki enn fyrir og hann hafi ekki verið upplýstur um það. Síðan sé mjög sérstakt að hægt sé að halda frá ráðherra skorblaðinu sem dómnefndin hafi notað til þess að grófflokka umsækjendur en nefndin hefur neitað að afhenda það.

Sporna þurfi gegn hugsanlegri klíkumyndun

„Ég nefni þarna fjögur atriði sem ég tel að þurfi að skoða sérstaklega. Það er í fyrsta lagi þessi tveggja vikna frestur sem ráðherra fær til þess að leggja mat á tillögu nefndarinnar og ákveða hvort fallast eigi á hana eða ekki. Ef ekki þarf rannsókn ráðherra að fara fram innan þess tíma. Þessi tími er alltof skammur. Í öðru lagi tel ég að það eigi að taka af öll tvímæli um skyldu nefndarinnar til þess að upplýsa ráðherrann. Og í þriðja lagi þá tel ég ekki gott að það sé meginregla að dómnefndin eigi að leggja til einn tiltekinn einstakling í hvert embætti. Síðan í fjórða lagi tel ég að opna eigi nefndina og fá nefndarmenn víðar að til þess að sporna gegn einsleitni og hugsanlegri klíkumyndun í vali dómara.“

Stóra einstaka málið sé hins vegar það að raunveruleg völd og ábyrgð fari ekki saman eins og fyrirkomulagið sé í dag. Erfitt sé að sjá að slíkt fyrirkomulag sé í samræmi við grunnviðmið stjórnskipunarinnar í ljósi 14. greinar stjórnarskrárinnar um ráðherraábyrgð. Vísar hann þar til þess að ráðherra beri ábyrgð á skipun dómara en ekki dómnefndin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert