Banaslys á Suðurlandsvegi

Banaslys varð á Suðurlandsvegi í morgun.
Banaslys varð á Suðurlandsvegi í morgun. mbl.is

Ungur karlmaður lést í umferðarslysinu sem varð á Suðurlandsvegi í morgun, á móts við Bitru í Flóahreppi í Árnessýslu, eftir árekstur tveggja fólksbíla. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. 

Ekki er hægt að skýra frá nafni mannsins að svo stöddu. 

Einn var í hvorum bíl, báðir búsettir á Íslandi. Ökumaður hins bílsins er ekki alvarlega slasaður. 

Slysið, sem varð um klukkan 7.40 í morgun, er til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi.

Að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar hjá lögreglunni á Suðurlandi komu fólksbílarnir tveir úr gagnstæðum áttum. Mögulegt er að annar ökumaðurinn hafi misst stjórn á bílnum en fljúgandi hálka var á veginum og svartamyrkur.

Suðurlandsvegur var lokaður á meðan lögreglan og slökkvilið var að störfum á vettvangi en hann hefur verið opnaður aftur.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert