Mörg andlát mögulega vegna lyfja

Ólafur B. Einarsson, verkefnastjóri hjá embætti landlæknis.
Ólafur B. Einarsson, verkefnastjóri hjá embætti landlæknis. mbl.is/​Hari

„Það er umhugsunarvert að svo margir Íslendingar fái ávísað ópíóíðum samanborið við hinar Norðurlandaþjóðirnar,“ segir Ólafur B. Einarsson, verkefnastjóri hjá embætti landlæknis. 19,4% íbúa hér á landi fengu ávísað ávanabindandi lyfjum á síðasta ári, en þetta hlutfall er 7,7% í Svíþjóð, 7,8% í Danmörku og 10,7% í Noregi, samkvæmt úttekt embættisins.

Íslendingar virðast því í sérflokki á Norðurlöndunum er kemur að ávanabindandi lyfjum og það telur Ólafur alls ekki æskilegt. Grunur er um að mörg andlát hérlendis megi rekja til eitrunar vegna lyfja, ekki síst oxýkódon.

„Hættan af því að svo miklu er ávísað hér á landi af ávanabindandi lyfjum er bæði sú að fleiri ánetjist lyfjunum og að þau skapi meiri vanda hjá fólki sem þegar er komið með fíknivanda,“ segir Ólafur.

Ávísanir á oxýkódon jukust töluvert á milli áranna 2016 og 2017 og það er umhugsunarvert að mati Ólafs.

Alls fengu 2.843 ein­stak­ling­ar lyf­inu ávísuðu á síðasta ári og ljóst að alltaf er hætta á því að einhver hluti ávísaðra lyfja fari í ólöglega sölu.

„Árið 2016 voru mörg andlát til skoðunar þar sem grunur var á að andlát mætti rekja til eitrunar vegna lyfja og þá sérstaklega oxýkodón,“ segir Ólafur.

Hann segir lyfið hafa valdið miklum miklum vanda í Bandaríkjunum, en þar ríður yfir faraldur vegna misnotkunar ávísaðra ópíumlyfja, sem oft leiðir fólk út í frekari fíkn.

„80% þeirra sem þjást af heróínfíkn byrjuðu sinn fíknivanda á því að misnota oxýkódón. Það er því mikið áhyggjuefni ef ávísanir lyfsins eru að aukast, þó svo að vandinn sé fjarri því að vera svipaður og í USA. Það er mögulegt að sú mikla notkun sem er hér á landi á kódeinlyfjum sé gátt yfir í meiri fíknivanda,“ segir Ólafur.

Mörg andlát árið 2016 má mögulega rekja til eitrunar vegna …
Mörg andlát árið 2016 má mögulega rekja til eitrunar vegna lyfja, ekki síst oxýkódón. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert