Spá 35 m/s á Reykjanesbraut

Veðurstofa Íslands

Í nýjustu spám er lítið eitt dregið úr mestu veðurhæð suðvestanlands, segir á vef Vegagerðarinnar. Engu að síður er spáð stormi með slagveðursrigningu og hviðum allt að 35 m/s á Reykjanesbraut, Kjalarnesi og undir Eyjafjöllum.

Þar kemur fram að það hvessi nokkuð snögglega upp úr klukkan 15 og veður nær hámarki suðvestanlands skamma stund laust fyrir kl. 18 á meðan lægðin fer hjá. 35-40 m/s undir Hafnarfjalli á milli kl. 17 og 19. Á Hellisheiði er spáð hríð og að varasamt verði að aka um heiðina síðdegis.

Það eru hálkublettir á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi. Hálka er á Hellisheiði og Þrengslum og einnig er hálka eða snjóþekja mjög víða á Suðurlandi. Flughált er á Rangárvallavegi.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Víða er greiðfært á Norðurlandi vestra en þó er hálka eða hálkublettir á nokkrum leiðum. Á Norðausturlandi er heldur meiri hálka og flughált í Reykjahverfi.

Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Hálka er einnig á Suðausturlandi og flughálka milli Hvalness og Jökulárlóns á Breiðamerkursandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert