Ferðamenn í rútum kaupa mannbrodda

Það er vissara að vera vel búin í hálkunni.
Það er vissara að vera vel búin í hálkunni. mbl.is/Golli

Sala mannbrodda hefur aukist talsvert í þeirri hálkutíð sem hefur verið undanfarið. Það ætti ekki að koma á óvart en það er víst engin vanþörf á að nota slíkan búnað því hálkuslysum fjölgar ávallt í takt við vaxandi svellbunkana á götum og göngustígum í slíku tíðarfari.

„Salan hefur verið fín. Við seldum mikið fyrir áramótin. Hún var meiri þá en núna,“ segir Olga Líndal Hinriksdóttir, starfsmaður Húsasmiðjunnar. Ferðamenn sem sækja klakann heim kaupa einnig mannbrodda. „Ferðaþjónustufyrirtæki koma gjarnan með nokkrar rútur og þeir kaupa sér mannbrodda,“ segir Olga. 

Ólíkar gerðir eru til af mannbroddum og misjafnt hvað hentar hverjum og einum. Talsvert selst af svokölluðum gormum en margir sem stunda útihlaup nota þá. Iðnaðarmenn taka frekar keðjur, að sögn Olgu.  

Fyrir nokkrum árum byrjaði fyrirtækið að selja mannbrodda og hefur salan gengið vel. Meira er pantað þegar útlit er fyrir mikla hálku. Olga segir að mun fleiri fyrirtæki og matvöruverslanir séu farnar að selja mannbrodda en var fyrir nokkrum árum.

Stöðug sala sem sveiflast eftir tíðarfari

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, tekur í sama streng og Olga. Góð sala er og hefur verið á mannbroddum undanfarið. Þeir hafa verið til sölu um árabil í matvöruversluninni.

„Salan hefur verið frekar stöðug milli ára. Núna er gríðarleg sala og svo koma tímabil þar sem þetta hreyfist ekkert en það fer eftir tíðarfarinu,“ segir Guðmundur.

Hálkan getur verið hættuleg.
Hálkan getur verið hættuleg. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert