Hafa ekki þurft að vísa slösuðum annað

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jón Magnús Kristjánsson, deildarstjóri bráðadeildar Landspítalans, segir að spítalinn geti við kjöraðstæður tekið á móti að minnsta kosti 15 alvarlega slösuðum einstaklingum á stuttum tíma. Spítalinn var ekki nálægt þolmörkum eftir rútuslysið sem varð við Kirkju­bæj­arklaust­ur 27. desember.

Jón segir að geta spítalans til að taka á móti fólki eftir hópslys fari eftir nokkrum þáttum. „Í fyrsta lagi fer það eftir alvarleika áverkanna, í öðru lagi hversu margir sjúklinganna reynast þurfa að fara beint í aðgerð á skurðstofu og í þriðja lagi hvernig ástand spítalans er að öðru leyti á þeim tíma sem sjúklingarnir koma.

Jón Magnús Kristjánsson, deildarstjóri bráðadeildar Landspítalans.
Jón Magnús Kristjánsson, deildarstjóri bráðadeildar Landspítalans. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Það koma ekki allir á sama tíma

Hann bendir á að spítalinn geti tekið á móti 15-20 alvarlega slösuðum einstaklingum úr einu hópslysi við kjöraðstæður. „Það skiptir líka máli á hversu stuttum tíma sjúklingarnir koma en oftast koma sjúklingar yfir svolítinn tíma úr hópslysum. Þeir koma ekki allir með sömu þyrlunni eða sömu sjúkrabílunum,“ segir Jón og bætir við að um leið og einhver tími líði á milli innkomu sjúklinga geti pláss losnað á bráðadeildinni.

„Við höfum ekki enn lent í þeirri stöðu að geta ekki tekið við sjúklingum sem hafa þurft að koma eftir hópslys,“ segir Jón en í slíku tilfelli myndu þeir sem metnir væru minnst slasaðir verða sendir annað:

Sjúkrahúsin á Akureyri, Akranesi, Selfossi og Keflavík myndu taka við þeim sem væru flokkaðir minna slasaðir. Síðan er einnig samningur við Norðurlönd, þar sem sjúklingar myndu verða sendir með flugi til annars Norðurlands.

Þyrlan lendir við Landspítalann eftir rútuslysið við Kirkjubæjarklaustur.
Þyrlan lendir við Landspítalann eftir rútuslysið við Kirkjubæjarklaustur. Árni Sæberg

Voru ekki nálægt þolmörkum eftir rútuslysið

Jón segir að um leið og slys sé orðið það stórt að það sé umfram það sem Landspítalinn ráði við geti orðið töf á meðferð og það geti í sumum tilfellum verið slæmt fyrir hinn slasaða.

Spítalinn var ekki nálægt þolmörkum þegar 12 voru fluttir þangað í kjölfar rútuslyssins við Kirkjubæjaklaustur í lok síðasta árs. „Úr því slysi komu til okkar á 20 mínútuna tímabili átta mikið slasaðir og fjórir minna slasaðir. Við hefðum getað tekið við tvöföldum þeim fjölda þá. Við vorum ekki nálægt þolmörkum í því tilviki en aðstæður voru að mörgu leyti góðar hjá okkur til að taka á móti slösuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert