„Hvar eru kindamjólkurostarnir“

Eirný Sigurðardóttir hefur heldur betur sett mark sitt á matarmenningu …
Eirný Sigurðardóttir hefur heldur betur sett mark sitt á matarmenningu landans. Sælkeraverslunin hennar Búrið er í dag orðið einn af miðpunktum nýsköpunar í íslenskum matvælaiðnaði. Mynd: Eggert Jóhannesson

Lambakjöt og nýjungar í íslenskra matargerð voru til umræðu í Magasíni dagsins á K100. Íslensk kjötsúpa er nú þegar orðin mjög vinsæl hjá ferðamönnum en Eirný Sigurðardóttir, verslunarkonar í Búrinu, segir útlendinga forvitna um fleiri afurðir íslensku kindarinnar. 

Beinmergurinn vinsæll niðursoðinn

Eirný, sem er einn frumkvöðlanna á bak við hinn árlega íslenska matarmarkað í Hörpu, segir mikla nýsköpun og vöruþróun í gangi með lambakjötið. Í viðtalinu tekur hún sem dæmi niðursoðinn beinmerg, enda engin furða, segir hún, því mergurinn sé hið mesta lostæti með smásalti. Eirný segir Asíubúa til dæmis spennta fyrir þeirri nýjung. 

Túristar spyrja um kindamjólkurosta

Ferðamenn koma mikið í verslunina hennar, Búrið á Grandagarði, og segist Eirný þurfa að svara fyrir það margoft á dag af hverju við framleiðum ekki íslenska kindamjólkurosta. „Þið eruð með helling af kindum, hvar eru allir kindamjólkurostarnir?“ Hún segist svara þessu á þá vegu að íslenska kindin hafi þróast úr því að vera mjólkurkyn yfir í að vera kjötkyn. Fyrir 100 árum hættum við að nýta mjólkina af kindinni, segir Eirný, og þar hefst þróun kindarinnar úr mjólkurkyni yfir í kjötkyn.

Spænskur kindastofn gefur fjórfalt meira

Talið berst einnig að öðrum kindastofnum í öðrum löndum. Íslensk kind gefur okkur á milli 500 og 700 ml á dag, útskýrir Eirný, en til samanburðar segir hún hægt að fara til Spánar og finna þar ákveðið kindakyn sem mjólkar tvo til tvo og hálfan lítra hverju sinni. Hún segist trúa því að við getum snúið þessari þróun við á nýjan leik og farið að rækta mjólkurkynskindur. 

Viðtalið í heild má nálgast hér að neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert