Krefjast hækkunar fæðingarorlofsgreiðslna

„Það er skýlaus krafa framkvæmdastjórnar Starfsgreinasambandsins að atvinnuleysisbætur og fæðingarorlofsgreiðslur …
„Það er skýlaus krafa framkvæmdastjórnar Starfsgreinasambandsins að atvinnuleysisbætur og fæðingarorlofsgreiðslur fylgi launaþróun enda er það hluti af kjörum fólks.“ mbl.is/Ómar Óskarsson

Lægstu laun ná ekki enn lágmarksframfærsluviðmiðum þrátt fyrir að þau hafi hækkað töluvert í síðustu kjarasamningum. Einnig fylgja hvorki atvinnuleysistryggingar né fæðingarorlofsgreiðslur launaþróun. 

„Það er skýlaus krafa framkvæmdastjórnar Starfsgreinasambandsins að atvinnuleysisbætur og fæðingarorlofsgreiðslur fylgi launaþróun enda er það hluti af kjörum fólks.“ Þetta kemur fram í ályktun framkvæmdastjórnar Starfsgreinasambandsins um atvinnuleysisbætur og fæðingarorlof.  

Ef tekið er mið af umsaminni hækkun, sem kemur til framkvæmda í maí á þessu ári, verði samningum ekki sagt upp, hafa lágmarkslaun hækkað um 91% á áratug. Á sama tíma hefur grunnréttur atvinnuleysistrygginga hækkað um 52,09% og grunnréttur til fæðingarorlofsgreiðslna hækkað um 51% (hámarksrétturinn hækkað um 30%).

Bent er á að þá staðreynd að viðmiðin hafa dregist svo aftur úr hækkun lágmarkslauna að það er kjaraskerðing þeirra sem þurfa að reiða sig á bætur vegna atvinnuleysis eða fjölgunar í fjölskyldunni. Skorað er á stjórnvöld að leiðrétta þessa kjaraskerðingu og tryggja að bætur fylgi hér eftir umsömdum hækkunum á lágmarkslaunum. 

Starfsgreinasamband Íslands (SGS) er landssamband almenns og sérhæfðs verkafólks. SGS er stærsta landssamband innan ASÍ, en 19 verkalýðsfélög eiga aðild að sambandinu með um 50 þúsund félagsmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert