Næturvagnar Strætó hefja akstur í nótt

mbl.is/Eggert

Næturvagnar Strætó hefja akstur í nótt frá miðbæ Reykjavíkur. Á þessu ári munu sex leiðir sinna akstri úr miðbænum aðfaranætur laugar- og sunnudaga; leiðir 101, 102, 103, 105, 106 og 111.

Stakt fargjald með næturvögnum verður 920 krónur eða 2 strætómiðar. Handhafar strætókorta geta hins vegar notað kortin í næturvagnana án frekari kostnaðar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó.

Þar segir, að fyrstu vagnarnir sem hefji akstur í nótt séu leiðir 101 og 111, en brottför verður frá Hlemmi klukkan 01:20. Hver leið mun fara þrjár ferðir á hverri nóttu, fyrir utan leið 111 sem fer fjórar ferðir. Ekið verður til um 04:30 á nóttunni.  

Hér má finna gagnvirkt kort fyrir næturleiðirnar

Þá segir, að brottfararstaður næturvagnanna verði ýmist við Stjórnarráðið eða Hlemm. Fólk geti einungis tekið á vagnana á biðstöðvum á leið út úr miðbænum, en ekki til baka. Einungis verður gefinn upp brottfarartími úr miðbænum. Vagnarnir munu ekki fylgja sérstakri tímaáætlun eftir að lagt er af stað frá Hlemmi eða Stjórnarráðinu og er farþegum því ráðlagt að fylgjast með staðsetningu vagnanna í Strætó-appinu, að því er segir í tilkynningunni.

Hér er skjal sem sýnir brottfaratíma og biðstöðvar næturvagnanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert