Svaf í ruslageymslu

Magdalena Sigurðardóttir hefur verið virk í starfi Fíladelfíukirkjunnar síðan hún …
Magdalena Sigurðardóttir hefur verið virk í starfi Fíladelfíukirkjunnar síðan hún kom úr meðferð. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Magdalena Sigurðardóttir var búin að sofa í þrjár nætur í ruslageymslu með rottu og ungum hennar þegar hún áttaði sig á því að botninum var náð. Hún hafði verið í virkri vímuefna- og áfengisneyslu í fjórtán ár og búin að missa allt frá sér.

Hún komst í meðferð í Hlaðgerðarkoti þar sem hún dvaldi í rúmt hálft ár og hefur verið edrú upp frá því, síðan eru liðin fimm ár. Í dag starfar hún sem fíkniráðgjafi og hjálpar konum sem eru í sömu stöðu og hún var í.

Í viðtali í Morgunblaðinu í dag segir Magdalena ekki alltaf auðvelt að bjarga fólki úr þessum aðstæðum og ekki allir tilbúnir í það. „Þeir sem ég hef náð mestum árangri með eru þeir sem eru nógu mikið búnir á því og eiga ekkert eftir, eins og ég var sjálf.“

Það gefur Magdalenu mikið að sjá fólk komast á beinu brautina og verða að nýtum samfélagsþegnum. „Ég hef verið með konur sem hafa verið mjög langt leiddar og jafnvel inni í fangelsum og allir búnir að gefast upp á þeim. Ég hef líka verið með konur sem hafa verið með hættulegum glæpamönnum og nú eru þær lausar úr þeim hlekkjum, orðnar edrú og farnar að lifa lífinu sjálfar. Konur eru oft sjálfum sér verstar í þessum aðstæðum. Þær fara í gegnum allskonar niðurlægingar og brjóta sig svo niður fyrir það. Þær eiga erfitt með að fyrirgefa sjálfum sér. Konur eru að gera svo marga hluti til að lifa þetta af og eftir því sem þær lifa þetta meira af, því meiri skaði verður.“

Magdalena segir fíkniefnaheiminn mjög harðan, mikið um vændi og glæpi og verið að blanda saman efnum í miklum mæli. Neyslan á sér ekki bara stað í jaðarhópum því neysluhyggjan í dag hefur ýtt fólki í krefjandi störfum og námsmönnum undir miklu álagi út í neyslu örvandi efna. Það fólk missir líka tökin á endanum. Ekkert mál er að nálgast fíkniefni að sögn Magdalenu, þau streymi hér inn bæði landleiðina og loftleiðina.

„Ástandið á götunni er miklu harðara en það var fyrir nokkrum árum. Það er mikið af örvandi efnum og svo eru að koma ný efni sem drepa fólk. Svo ég tali nú ekki um kannabisið sem er búið að stökkbreyta og blanda svo mikið að ungir krakkar grilla í sér toppstykkið með nokkrum smókum. Ég fer mikið inn á geðdeild og að sjá krakkana þar; þau eru dottin inn í nánast varanlegt geðrof af kannabisreykingum. Þetta er hræðilegt efni og fólk lokar augunum fyrir skaðsemi kannabis því það er svo þægilegt að þurfa ekki að vita af unga fólkinu okkar í dag sem er alltaf svo stillt og rólegt í tölvunni, þar til allt springur,“ segir Magdalena og hún veit hvað hún er að tala um. „Það er svo mikill hraði og ráðaleysi í öllu og ég held að snjallsímar og samskipti í netheimum hafi þar áhrif. Það skortir á mannleg samskipti en það eru þau sem þroska okkur, við erum manneskjur, ekki tæki.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert