Telja sig hafa náð tökum á eldinum

Slökkviliðsmenn telja sig hafa náð tökum á eldinum.
Slökkviliðsmenn telja sig hafa náð tökum á eldinum. mbl.is/Hanna

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Brunavarnir Árnessýslu telja sig hafa náð tökum á eldinum í Hellisheiðarvirkjun og reykkafarar eru að fara inn í bygginguna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orku náttúrunnar, eiganda og rekstraraðila virkjunarinnar. 

Þá segir að frekari truflanir hafi ekki orðið á orkuvinnslunni frá því í morgun, en tvær vélar sem framleiða rafmagn og ein varmavél slógu út. Verði ekki frekari röskun á vinnslunni eiga viðskiptavinir Orku náttúrunnar ekki að verða þessa varir, segir jafnframt.

Engan hefur sakað við eldsvoðann og vel gekk að rýma húsið. Tveir gestir voru á jarðhitasýningu Orku náttúrunnar, sem er í virkjuninni. Segir í tilkynningunni að þeim hafi ekki virst mikið brugðið og héldu áfram leið sinni út á Keflavíkurflugvöll á leið úr landi. Jarðhitasýningin verður lokuð á morgun, að minnsta kosti, en enn er ekki vitað um tjón vegna eldsins, hvorki þar né annars staðar innan stokks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert