Tíu stiga hiti í hnúkaþey

Veðurstofa Íslands

Veðrið er af ýmsum toga í dag. Á Austurlandi og Suðausturlandi er eins og hellt úr fötu og hætta á vatnsflóðum á meðan yfir tíu stiga hiti mælist á Akureyri, Seyðisfirði og í Vopnafirði í hnúkaþey. Langtímaspár gera ráð fyrir norðanátt sem þýðir kólnandi veður um land allt.

„Í dag blæs hann úr suðri. Hvassviðri eða stormur austan megin á landinu, en strekkingur eða allhvass vestan til. Það er útlit fyrir mikla rigningu á Suðausturlandi og Austfjörðum í allan dag og eru líkur á vatnsflóðum á þeim slóðum. Þarna styttir ekki upp fyrr en seint í kvöld eða í nótt. Eitthvað mun verða vart við vætu í öðrum landshlutum einnig. Sunnanáttin hefur fært hlýtt loft yfir landið og til dæmis hefur í nótt í hnjúkaþey mælst rúmlega 10 stiga hiti á Akureyri, Seyðisfirði og í Vopnafirði. 

Á morgun er síðan útlit fyrir suðvestan strekking eða allhvassan vind og með fylgja él eða skúrir. Það léttir til um landið norðaustanvert. Hitinn þokast niður á við og verður ekki mikið yfir frostmarki. Annað kvöld verður úrkoman orðin samfelldari, það bætir í vindinn og fer að kólna meira. Aðfaranótt sunnudags og á sunnudaginn mun því snjóa nokkuð víða um land samfara stífum vindi. 

Langtímaspár gera síðan ráð fyrir að norðanátt ráði ríkjum í næstu viku með frosti á öllu landinu og ofankomu norðanlands,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Sunnan 18-23 m/s um landið austanvert, en 10-18 vestan til. Mikil rigning á Suðausturlandi og Austfjörðum, en allvíða skúrir annars staðar. Hiti 4 til 9 stig.

Suðvestan og sunnan 10-18 m/s á morgun og él eða skúrir, en léttskýjað á norðaustanverðu landinu. Samfelldari rigning, slydda eða snjókoma á Suður- og Vesturlandi undir kvöld. Hiti 0 til 4 stig.

Á laugardag:

Suðvestan og sunnan 10-18 m/s og él eða skúrir, en léttskýjað á norðaustanverðu landinu. Samfelldari rigning, slydda eða snjókoma á Suður- og Vesturlandi undir kvöld. Hiti 0 til 4 stig. 

Á sunnudag:
Sunnan og suðvestan 15-23 m/s aðfaranótt sunnudags og víða slydda eða snjókoma. Suðvestan 13-20 á sunnudaginn með dimmum éljum, en léttir til norðaustan- og austanlands eftir hádegi. Kólnandi veður, frost 1 til 7 stig um kvöldið. 

Á mánudag:
Norðlæg átt og víða él, en úrkomulítið síðdegis á sunnanverðu landinu. Frost 1 til 10 stig. 

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:
Norðlæg átt og snjókoma eða él norðan til á landinu, annars úrkomulítið. Frost 2 til 10 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert