Mikil ölvun meðal flugfarþega í Leifsstöð

Lögreglan á Suðurnesjum hefur þurft að hafa afskipti af ölvuðum …
Lögreglan á Suðurnesjum hefur þurft að hafa afskipti af ölvuðum flugfarþegum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar margoft í vikunni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Talsverðar annir voru hjá lögreglunni á Suðurnesjum í vikunni vegna ölvunar farþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Maður var handtekinn vegna slæmrar hegðunar eftir að hafa misst af flugi sökum ölvunarsvefns. Þetta er í annað skipti sem hann kemur við sögu lögreglu í flugstöðinni af sömu ástæðum. 

Maðurinn hugðist fara til Póllands en komst ekki lengra en á bekk við útgönguhlið þar sem hann sofnaði ölvunarsvefni. Hann var settur í hjólastól og færður í töskusal þar sem innritaður farangur hans var sóttur. Vegna slæmrar hegðunar mannsins varð að handtaka hann og færa á lögreglustöð.

Þrennt var handtekið í flugstöðinni sem ýmist missti af flugi eða var vísað frá vegna ölvunar. Einn farþega til viðbótar, sem millilenti í Keflavík, varð lögregla að ferja um flugstöðina í hjólastól þar sem honum var meinað að halda ferð sinni áfram en stóð ekki í fæturna sökum ölvunar. Þá gekk erlend kona á einstefnuhlið í töskusal og datt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert