Óska eftir sakavottorði þjálfara

HK hefur um 10 ára skeið óskað eftir upplýsingum úr …
HK hefur um 10 ára skeið óskað eftir upplýsingum úr sakaskrá, með samþykki þjálfara og starfsmanna, áður en þeir hefja störf hjá félaginu. mbl.is/Golli

Handknattleiksfélag Kópavogs, HK, hefur um 10 ára skeið óskað eftir upplýsingum úr sakaskrá, með samþykki þjálfara og starfsmanna, áður en þeir hefja störf hjá félaginu. Þetta segir í yfirlýsingu á heimasíðu félagsins vegna #metoo-herferðarinnar, en slíkt hefur verið uppi á teningnum hjá fleiri félögum.

„Fyrir um 10 árum síðan hóf HK vinnu að siðareglum félagsins. Frá þeim tíma hefur enginn þjálfari, leikmaður eða starfsmaður verið ráðinn til félagsins nema að skrifa undir samning þess efnis að viðkomandi hafi kynnt sér siðareglur félagsins og framfylgi þeim í einu og öllu.“

Hafa vísað aðilum frá félaginu vegna brota

Þá segir að félagið hafi þurft að beita viðurlögum vegna óviðeigandi hegðunar og brota á siðareglum. Þá sé unnið eftir skýrum verkferlum og hefur þeim aðilum sem brotið hafa af sér verið vísað frá félaginu.

Önnur íþróttafélög sem brugðist hafa við #metoo-opinberun íþróttakvenna með yfirlýsingum eru m.a. Grótta á Seltjarnarnesi, Knattspyrnufélag ÍA og Valur.

Í yfirlýsingu frá Gróttu segir að á síðasta aðalstjórnarfundi hafi verið ákveðið að fara í endurskoðun á þeim áætlunum sem til eru um jafnrétti, forvarnir og siðareglur í ljósi #metoo-umræðunnar. Þá mun félagið standa fyrir fræðslu fyrir iðkendur, foreldra og þjálfara um kynferðislegt ofbeldi og birtingarmyndir þess í febrúar.

„Síðustu ár hafa allir þjálfarar félagsins þurft að kvitta undir eyðublað til samþykkis um að Grótta fái upplýsingar úr sakaskrá áður en þeir hefja störf hjá félaginu og verður svo áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert