Fylgdarakstur yfir Þrengslaveg

Vegagerðin verður með fylgdarakstur yfir Þrengslin frameftir kvöldi.
Vegagerðin verður með fylgdarakstur yfir Þrengslin frameftir kvöldi. mbl.is/Rax

Vegagerðin er nú með fylgdarakstur yfir Þrengslaveg frá Rauðavatni að sunnan og við Þorlákshafnargatnamót að austan og er stefnt að því að halda honum áfram með kvöldinu ef aðstæður leyfa.

Hellisheiði er hins vegar enn lokuð og þá er einnig lokað um Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði. Opið er um Suðurstrandarveg en þar er hálka, éljagangur og hvassviðri.

Búið er að loka veginum um Öxnadalsheiði og verður hann skoðaður aftur í fyrramálið.

Fært er út fyrir Tröllaskaga en þar er þó ansi hvasst og byljótt og á líklegast eftir að versna til muna þegar líður á.

Á Vestfjörðum er orðið ófært um Hjallaháls og Klettsháls.

Færð og aðstæður

Það er hálka eða snjóþekja á velflestum vegum á Suður- og Suðvesturlandi, víðast hvar ofankoma og sums staðar strekkingsvindur. Vegirnir um Hellisheiði og Þrengsli eru lokaðir.  Lokað er á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði. Hálka, éljagangur og hvassviðri er á Suðurstrandarvegi.

Ófært er í Kjósarskarði og eins á Krýsuvíkurvegi.

Snjóþekja er á flestum vegum á Vesturlandi og skafrenningur og mjög hvasst og oft á tíðum ansi blint. Þæfingsfærð er á fjallvegum.

Á Vestfjörðum er víðast hvar þæfingsfærð á fjallvegum. Hjallaháls er orðinn ófær og einnig Klettsháls. Þungfært er á Steingrímsfjarðarheiði og Kleifaheiði.

Hálka og snjóþekja er á Norðurlandi. Búið er að loka veginum um Öxnadalsheiði.  Þæfingsfærð er út fyrir Tröllaskaga og ansi hvasst og byljótt og á eftir að versna er líður á.

Það er hálka yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi og á Austurlandi er hálka m.a. á Fjarðarheiði, Fagradal, Öxi og Breiðdalsheiði.

Með suðausturströndinni er autt frá Djúpavogi suður að Jökulsárlóni en hálkublettir eða hálka þar fyrir vestan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert