Éljagangur hamlar lendingum í Keflavík

Flugvél Wow air frá Dublin sem lenda átti á Keflavíkurflugvelli nú síðdegis þarf að lenda á Egilsstöðum og flugi Lufthansa frá Frankfurt hefur verið snúið við vegna veðurs. Þetta staðfestir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.

Hann segir ganga á með dimmum éljum á vellinum, auk þess sem mikill snjór sé á brautunum. Ein landgöngubrú hefur verið tekin úr notkun vegna veðursins, en Guðjón segir vindinn ekki stærsta vandamálið að þessu sinni, heldur snjóinn og hversu dimmt verði í éljum.

Þá hefur fréttastofa mbl.is fengið ábendingar um flugvélar sem hringsóli yfir vellinum.

Uppfært kl. 15:25: Ruðningstæki eiga fullt í fangi með að ryðja brautir flugvallarins, en eftir hver él þarf að ryðja að nýju. Því hringsóla flugvélar sem koma inn til lendingar yfir vellinum þar til brautirnar eru tilbúnar.

Flugvél Wow air er lent á Egilsstöðum. Þar mun hún taka eldsneyti og fara aftur í loftið innan skamms, að sögn upplýsingafulltrúa Wow air. Þá eru aðrar vélar félagsins lentar í Keflavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert