Valdi Pearl Jam fram yfir HM

Haukur er á leið á sína 15. tónleika með Pearl …
Haukur er á leið á sína 15. tónleika með Pearl Jam. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haukur Gunnarsson er einn mesti Pearl Jam-aðdáandi landsins. Hann er á leiðinni á sína fimmtándu tónleika með bandarísku rokksveitinni í Padúa á Ítalíu í sumar. Viku síðar fer hann svo á sextándu tónleikana í Prag.

Valið um að fara á tónleikana í sumar var samt nokkuð snúið því íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu spilar á sama tíma í fyrsta sinn á HM og Haukur er mikilli knattspyrnuaðdáandi.

Elti hann landsliðið meðal annars út til Frakklands síðasta sumar og sá flesta leikina með vinahópi sínum og fjölskyldum. Þau leigðu stórt hús í Frakklandi, 36 saman, og voru búin að ganga frá öllu 14 mánuðum áður en keppnin hófst.

Hljómsveitin Pearl Jam á sér marga aðdáendur.
Hljómsveitin Pearl Jam á sér marga aðdáendur. AFP

Dýrt að fara til Rússlands

„Auðvitað væri maður til í að vera úti,“ segir Haukur, spurður hvers vegna hann valdi ekki frekar að sjá íslenska landsliðið spreyta sig í fyrsta sinn á HM. „Ég er búinn að fara á landsleiki öll þessi ár, meira að segja þegar við gátum ekki neitt.“

Meðal annars fór hann til Hollands og sá strákana spila þar í undankeppni EM og til Finnlands er þeir léku við heimamenn í undankeppni HM. Einnig fór hann aftur til Hollands síðasta sumar til að fylgja íslenska kvennalandsliðinu eftir á EM.

„Ef þetta hefði verið einhvers staðar annars staðar en í Rússlandi værum við fyrir löngu búin að panta okkur gistingu,“ segir hann um vinahópinn og fjölskyldurnar og á þar við kostnaðinn við för þangað.

Þessi rándýra mynd var tekin í Dublin 2010 þegar Haukur …
Þessi rándýra mynd var tekin í Dublin 2010 þegar Haukur og Graham Holey hittu Mike McCready, gítarleikara Pearl Jam, í plötubúð daginn fyrir tónleika. Ljósmynd/Aðsend

Að minnsta kosti tvennir tónleikar í einu

Spurður nánar út í áhugann á gruggrokkurunum í Pearl Jam segist Haukur hafa farið á fyrstu tónleikana með þeim í London 1996 og séð þá tvívegis. Hann hefur sjö sinnum farið utan til að sjá þá á sviði og reynir yfirleitt að fara á að minnsta kosti tvenna tónleika í hverri ferð. „Snilldin við þá er að þeir breyta lagalistanum á milli tónleika, þannig að maður veit aldrei við hverju maður má búast,“ útskýrir hann.

Haukur, sem skartar Pearl Jam-húðflúri á kálfanum, hefur verið á sérstökum tölvupóstlista fyrir aðdáendur sveitarinnar frá árinu 1995 og kynntist í gegnum hann erlendum aðdáendum sveitarinnar sem hann hefur margoft hitt á tónleikum erlendis eftir að hafa flogið út einn á báti. Einn þeirra er Graham Holey frá Nýja-Sjálandi. Saman hafa þeir farið á níu tónleika með Pearl Jam. Þó hefur kona Hauks einnig farið með honum á fimm tónleika, sem og dætur í eitt skipti.

„Við áttum miða á tvenna tónleika í London árið 2000 en vorum að kaupa okkur okkar fyrstu íbúð og ég þurfti að selja miðana. Ég hét því að í hvert skipti sem þeir myndu fara á tónleikaferð í Evrópu eftir það myndi ég fara að sjá þá og ég hef staðið við það,“ segir hann léttur.

Haukur og Graham fremstir á tónleikunum í Stokkhólmi 2012.
Haukur og Graham fremstir á tónleikunum í Stokkhólmi 2012. Ljósmynd/Aðsend

Stressaður á hverju ári 

Þegar Haukur er beðinn um að nefna bestu tónleikana með Pearl Jam segir hann tónleika í Antwerpen í Belgíu 2006 koma fyrst upp í hugann. Þangað fór hann með konunni sinni og náðu þau fremsta plássinu, vinstra megin við sviðið, sem hafi verið „algjör draumur“. Spurður út í uppáhaldslagið stendur ekki heldur á svari: State of Love and Trust úr kvikmyndinni Singles en það var fyrsta lagið sem kveikti áhuga hans á sveitinni.

Hann telur aðdáendahóp Pearl Jam vera mjög stóran hér á landi og skilur ekki hvers vegna þeir hafa ekki spilað hérlendis. Fari svo að þeir komi hingað á endanum ætlar hann ekki að missa af þeim stórviðburði. „Ég verð stressaður á hverju einasta ári þegar ég er að plana sumarfríið með fjölskyldunni ef þeir allt í einu tilkynna það og ég þyrfti að afboða ferðalagið.“

Frá Amsterdam 2014 þegar Haukur fór með fjölskylduna sína á …
Frá Amsterdam 2014 þegar Haukur fór með fjölskylduna sína á tónleika með Pearl Jam. Frá vinstri: Haukur, Hildur Telma Hauksdóttir, Helena Bryndís Hauksdóttir og Rakel Svansdóttir. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert