Vildi ekki heim og réðst á lögreglu

Töluvert annríki var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og þurfti lögregla m.a. í tvígang á fjórða tímanum að takast á við ofbeldismenn.

Óskað var eftir aðstoð lögreglu um hálffjögurleytið í nótt vegna tveggja einstaklinga sem voru með mikil læti inni á skemmtistað í miðborginni. Lögregla fór á vettvang og handtók báða mennina. Annan þeirra vegna gruns um skemmdarverk og líkamsárás og hinn fyrir að að neita að segja deili á sér. Báru ítrekaðar tilraunir lögreglumanna til að komast að því hver hinn handtekni væri ekki árangur og var hann því vistaður í fangageymslu.

Þá hafði leigubílstjóri samband við lögreglu vegna farþega sem neitaði að greiða fyrir aksturinn. Lögreglumenn mættu á vettvang og leystu úr málinu og ætluðu í kjölfarið að koma farþeganum heim. Sá tók ekki betur í þá uppástungu en svo að hann réðst á lögreglumennina, sem áttu þess ekki annan kost en að yfirbuga hann og vista í fangageymslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert