Vonskuveður og stórhríð á Norðvesturlandi

Vindaspá Veðurstofunnar til hádegis í dag.
Vindaspá Veðurstofunnar til hádegis í dag. Skjáskot/Veðurstofan

Búast má við miklu vonskuveðri og stórhríð á Norðvesturlandi og Ströndum um tíma fram undir hádegi í dag. Gul viðvörun er í gildi fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir, Norðurland vestra og Norðurland eystra.

Mjög hvöss suðvestanátt verður með éljum og það kólnar. Þá gæti slegið í storm af og til með mjög takmörkuðu skyggni að því er fram kemur í spá Veðurstofunnar. Þannig geta orðið mjög dimm él með litlu skyggni og færð gæti spillst, einkum í efri byggðum og á fjallvegum.

Það léttir þó til á Norðaustur- og Austurlandi.

Í fyrramálið snýst síðan í norðvestanátt, fyrst á Vestfjörðum, en hægari suðlæg eða breytileg átt framan af degi.

Síðan er að sjá að norðlægar áttir með snjókomu á köflum eða éljum ráði ríkjum nyrðra út vikuna, en yfirleitt þurrt sunnan til á landinu. Frost um mestallt land.

Öxnadalsheiði lokuð og ófært á Mosfellsheiði

Öxnadalsheiði er lokuð og snjóþekja eða krapi er á velflestum vegum á Suður- og Suðvesturlandi og víðast hvar ofankoma. Ófært er einnig á  Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði en mokstur er hafinn. Einnig er ófært á Kjósarskarði og Krýsuvíkurvegi.

Verið er að hreinsa vegi á Vesturlandi en þar er allvíða þæfingsfærð eftir úrkomu næturinnar. 

Á sunnanverðum  Vestfjörðum eru fjallvegir ófærir og eins Þröskuldar - og mokstur í biðstöðu vegna veðurs. 

Hríðarveður er á Norðurlandi, allt austur í Þingeyjarsýslur og víðast snjóþekja eða hálka. Það er mjög hvasst og hviðótt milli Sauðárkróks og Varmahlíðar en ekki síður á Siglufjarðarvegi og í Ólafsfjarðarmúla. Öxnadalsheiði er lokuð.

Það er hálka yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi en mikið er autt á Asturlandi. Þar er þó sums staðar farið að élja. Hálka er á Fjarðarheiði.

Með suðausturströndinni er autt suður í Öræfi en hálkublettir eða hálka þar fyrir vestan.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert