Lægstu leikskólagjöldin í Reykjavík

Reykjavík er með lægstu almennu leikskólagjöldin miðað við 8 tíma …
Reykjavík er með lægstu almennu leikskólagjöldin miðað við 8 tíma með fæði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Leikskólagjöld eru hæst í Garðabæ en lægst í Reykjavík. Gjöldin hækkuðu milli ára í sjö af sextán sveitarfélögum landsins en lækkuðu í þremur sveitarfélögum og héldust óbreytt í sex. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri úttekt verðlagseftirlits ASÍ á leikskólagjöldum sveitarfélaganna.

Í úttekt ASÍ sést að mikill verðmunur er á hæstu og lægstu leikskólagjöldunum eða 52% sem gerir 13.231 krónur á mánuði eða ríflega 145.500 krónur á ári. Lægstu almennu leikskólagjöldin, miðað við 8 tíma með fæði, eru í Reykjavík, 25.234 krónur á mánuði, á meðan hæstu leikskólagjöldin eru í Garðabæ, 38.465 krónur á mánuði.

Kópavogur, Akureyri, Árborg, Akranes, Seltjarnarnes, Sveitarfélagið Skagafjörður og Ísafjarðarbær hækkuðu leikskólagjöld sín þannig að 8 tímar með fæði eru dýrari í janúar 2018 en í janúar 2017.

Mesta hlutfallslega hækkunin á almennu gjaldi, 8 tímum með fæði, er hjá Sveitarfélaginu Árborg eða 2,9% eða sem nemur 1.025 krónum á mánuði, næstmest hækka almenn gjöld í Kópavogi eða um 2,7% (821 króna á mánuði) og sömu sögu er að segja um Ísafjarðabæ en þar hækka gjöldin einnig um 2,7% (954 krónur á mánuði).

Vestmannaeyjar, Reykjavík og Mosfellsbær hafa hins vegar lækkað leikskólagjöld síðan í fyrra. Mestu hlutfallslegu lækkunina má finna í Vestmannaeyjum en þar lækka almenn leikskólagjöld um 10,2% og fara úr 39.578 krónum í 35.550 krónur. Leikskólagjöldin í bæjarfélaginu voru hins vegar hæst af öllum stöðum í fyrra.

Næstmesta lækkunin er í Reykjavík eða 8,1% (2.213 krónur lækkun á mánuði) en í Mosfellsbæ lækka gjöldin um 3,7% (1.264 krónur á mánuði).

Rúmlega 145 þúsund króna munur á gjöldum á ári

Niðurstaðan er því sú að Reykjavík er með lægstu almennu leikskólagjöldin miðað við 8 tíma með fæði, 25.234 krónur, en Garðabær með þau hæstu, 38.465 krónur. Munurinn er 13.231 krónur á mánuði eða 145.541 krónur á ári.

Það skal þó tekið fram að í úttektinni er miðað við leikskólagjöld fyrir eitt barn. Systkinaafsláttur, sem er mismunandi eftir sveitarfélögum, var því ekki hafður til hliðsjónar við gerð úttektarinnar.










mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert