Þungfært og ófært fyrir vestan

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Þungfært er um Holtavörðuheiði og Fróðárheiði er ófær. Á Vestfjörðum er þæfingsfærð og skafrenningur á Gemlufallsheiði, Hálfdán og Mikladal. Ófært er um Súðavíkurhlíð og á flestum öðrum fjallvegum. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Þar segir enn fremur að lægðin fyrir norðan land sé enn mjög djúp og hún kemur nú til baka. Vestan til á Norðurlandi, einkum frá Ströndum og norður á Siglufjörð, fer veður því versnandi og með norðvestanhvassviðri, stórhríð og litlu skyggni fram yfir miðjan dag. Eins á norðanverðum Vestfjörðum fram undir hádegi, en Holtavörðuheiði og Brattabrekka sleppa betur. 

Færð og aðstæður

Það er hálka eða snjóþekja og éljagangur á velflestum vegum á Suður- og Suðvesturlandi en þæfingsfærð á Grafningnum. Þungfært er á Krýsuvíkurvegi.

Á Vesturlandi er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum. Þungfært á Holtavörðuheiði. Ófært er á Fróðárheiði. Á Norðvesturlandi er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum. Þæfingsfærð og éljagangur er á Þverárfjalli og á Siglufjarðarvegi. Á Norðausturlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum.

Það er hálka yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfum og á Austurlandi er hálka m.a. á Fjarðarheiði, Öxi og Breiðdalsheiði.

Með suðausturströndinni er autt frá Djúpavogi suður að Jökulsárlóni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert