Súðavíkurhlíð lokuð vegna snjóflóðs

mbl.is/Kristján

Súðarvíkurhlíð er lokuð vegna snjófljóðs sem þar féll í nótt og er vegurinn því lokaður. Ekki er vitað hvenær vegurinn verður opnaður en það fer allt eftir veðri og verður metið, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vestfjörðum.

Fjölmargar leiðir eru ófærar á Vestfjörðum samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar.

Vegagerðin

Spáð er norðvestan 13-23 vestan til í dag, hvassast á Vestfjörðum og Ströndum, en heldur hægari suðvestlæg átt fyrir austan fram eftir degi. Dregur úr vindi síðdegis, víða norðvestan 8-15 seint í kvöld, en hvassari suðaustanlands. Snjókoma eða él á norðanverðu landinu, en léttir víða til syðra.

Norðvestan og vestan 13-20 og víða snjókoma fyrir norðan í fyrramálið og einnig vestan til síðdegis, en annars hægari breytileg átt og úrkomulítið. Dregur úr vindi seint á morgun. Frost yfirleitt 0 til 7 stig.

Búið er að opna veginn um Hellisheiði en vegirnir um Þrengsli og Mosfellsheiði eru lokaðir, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Það er hálka eða snjóþekja á velflestum vegum á Suður- og Suðvesturlandi og þæfingsfærð á Grafningnum. Þungfært er á Krýsuvíkurvegi.

Á Vesturlandi er þungfært eða þæfingur á þó nokkrum leiðum en verið að moka. Á Vestfjörðum er víðast hvar þæfingsfærð á fjallvegum. Ófært er um Súðavíkurhlíð og á flestum fjallvegum og verið að skoða aðstæður, nánari upplýsingar koma síðar samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Öxnadalsheiði enn lokuð

Á Norðvesturlandi er verið að skoða aðstæður og koma upplýsingar síðar. Öxnadalsheiði er lokuð. Á Norðausturlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum.

Það er hálka yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfum og á Austurlandi er hálka m.a. á Fjarðarheiði, Fagradal, Öxi og Breiðdalsheiði.

Með suðausturströndinni er autt frá Djúpavogi suður að Jökulsárlóni en hálkublettir eða hálka þar fyrir vestan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert