Framleiðsla hjá Coca Cola stöðvuð

Coca Cola á Íslandi stöðvaði framleiðslu sína í gærkvöldi.
Coca Cola á Íslandi stöðvaði framleiðslu sína í gærkvöldi. mbl.is/Jim Smart

Coca Cola á Íslandi stöðvaði framleiðslu sína í gærkvöldi eftir að fregnir bárust af jarðvegsgerlum í neysluvatni í Reykjavík. Fyrirtækið hefur núna fengið það staðfest frá Veitum að verksmiðja þess á Stuðlahálsi er fyrir utan sýkta svæðið og því er útlit fyrir að framleiðsla hefjist á nýjan leik í dag eða á morgun.

„Í gærkvöldi fór af stað ferli sem er hluti af okkar matvælaöryggi og gæðaferlum. Við tókum þá ákvörðun að vera ekkert að framleiða í dag fyrr en við vissum meira,“ segir Stefán Magnússon, markaðs- og sölustjóri Coca Cola á Íslandi.

Hann segir að öll sýni sem hafi verið tekin hjá fyrirtækinu hafi verið í fullkomnu lagi. Engu að síður til að láta neytendur njóta vafans var ákveðið að allt það sem var framleitt í gær og á föstudag skyldi ekki fara í sölu. Ekki þurfti að innkalla neinar vörur þar sem ekki var búið að opna fyrir sölu á þeim. „Þetta var bara öryggisráðstöfun,“ segir Stefán.

„Nýjustu upplýsingar eru að það á að vera í lagi að drekka vatnið,“ bætir hann við og nefnir að allt inntaktsvatnið sem kemur til Coca Cola fari í gegnum vatnshreinsistöð sem á að drepa allar bakteríur.

Fyrirtækið hefur beint því til viðskiptavina sinna sem eru á svæðum sem voru álitin menguð, sem hafa verið að selja Coca Cola úr gosvélum að fylgjast með fréttum frá heilbrigðisyfirvöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert