Gætu þurft að loka flugvöllum á næstu árum

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia.
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. mbl.is/Hanna

Á næstu þremur árum þarf að taka ákvörðun um hvað menn vilja gera með innanlandsflugkerfið og setja þarf frekari fjármuni í uppbyggingu flugvalla á landsbyggðinni eigi ekki að þurfa að loka völlum og leggja innanlandsflugið niður að einhverju leyti. Þetta segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, en félagið hélt morgunfund í dag þar sem rætt var um framtíð innanlandsflugs.

Björn Óli segir að framundan sé fjöldinn allur af vörðum sem muni að óbreyttu valda því að loka þurfi einhverjum af flugvöllum landsins. Segir hann að komin sé kvöð um að lengja ljósakerfi til dæmis á Reykjavíkurflugvelli, Egilsstaðaflugvelli og Akureyrarflugvelli. Þá sé malbikið á Egilsstaðaflugvelli komið á tíma og hafi verið viðhaldið með líflengingarefnum síðustu ár. „En núna er þetta bara tímaspursmál,“ segir hann.

Þá sé ekki lengur hægt að fá varahluti í ýmis kerfi á völlunum vegna aldurs. „Þegar við erum komin í þá stöðu að við getum ekki gert við hlutina vegna skorts á fjármagni mun ákveðinn hluti af fluginu leggjast niður,“ segir hann.

Ríkið setti aukalega 200 milljónir í fjárfestingar vegna innanlandsflugs á síðasta ári og segir Björn Óli að Isavia meti það svo að 600-700 milljónir fast á ári til frambúðar þurfi til að viðhalda núverandi flugvöllum. Til viðbótar við þetta setur ríkið um tvo milljarða árlega í rekstur innanlandsflugs.

„Við verðum að ákveða hvað við ætlum að gera og hvaða áætlun við höfum um innanlandsflugið, annars lendum við í því að allskonar búnaður hrynur, malbikið verður slitið og fleira.“ Segir hann að ástæða sé til að benda á að á næstu árum þurfi að taka ákvörðun um hver vilji ríkisins sé um innanlandsflug og setja fjármuni í samræmi við það í málaflokkinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert