Huga mætti að sektarheimildum

Flokkur fólksins og Miðflokkurinn sendu fjölda fólks SMS-skilaboð fyrir kosningarnar …
Flokkur fólksins og Miðflokkurinn sendu fjölda fólks SMS-skilaboð fyrir kosningarnar í fyrra. AFP

Huga mætti að sektarheimildum vegna endurtekinna brota stjórnmálaflokka varðandi fjöldaskilaboð fyrir kosningar.

Þetta segir Hafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar.

Engar sektarheimildir fyrirfinnast í fjarskiptalögum.

Stofnunin komst að þeirri niðurstöðu í desember að Flokkur fólksins og Miðflokkurinn hefðu brotið gegn fjarskiptalögum með því að senda SMS-skilaboð til fjölda farsímanotenda fyrir alþingiskosningarnar í haust.

Afla þarf sér­staks samþykk­is frá hverj­um viðtak­anda fyr­ir sig áður en hon­um eru send ra­f­ræn skila­boð sem inni­halda beina markaðssetn­ingu. Það telst ekki samþykki fyr­ir mót­töku slíkra skila­boða að hafa síma­núm­er sitt skráð í síma­skrá án bann­merk­ing­ar.

Endurtekin brot

„Ég hef ekki lagt áherslu á það hjá okkur að við fengjum sektarheimildir til að fylgja málum eftir. Við komumst ágætlega af án sektarheimilda,“ segir Hrafnkell, aðspurður.

„Hins vegar varðandi þennan málaflokk hefur það komið fyrir að við erum með endurtekin brot. Mér finnst í þeim tilfellum að það mætti alveg huga að sektarheimildum.“

Hann segir að fræðilega séð gæti lögreglan tekið mál sem þessi upp sem brotamál og rannsakað þau en það hafi aftur á móti aldrei gerst. Alvarlegri og ítrekuðum brotum hafi verið beint til lögreglu án þess að hún hafi ákveðið að rannsaka þau frekar.

Flestir segjast ekki hafa vitað betur

„Það er sem betur fer þannig að ef fjarskiptafyrirtæki brjóta fjarskiptalög taka þau tillit til okkar ávarðana og breyta til betri vegar því sem aflaga hefur farið en í þessum óumbeðnu fjarskiptum þá er þetta allur obbinn af fyrirtækjum sem er að senda út.“

Hrafnkell greinir frá því að flest fyrirtækin segjast ekki hafa vitað betur er þau brutu fjarskiptalög og taka ábendingum mjög vel. Einnig nefnir hann að mikið fræðslu- og upplýsingastarf hafi verið unnið af hálfu stofnunarinnar, þar á meðal með bæklingi bæði í prentuðu og rafrænu formi.

Hvað stjórnmálaflokkana varðar segir hann þá sem brjóta af sér ekkert endilega vera þá sömu. „Kannski þyrftum við að upplýsa þessa flokka betur um hverjar reglurnar eru fyrir kosningar. Ég held að það fari enginn viljandi í einhverja starfsemi sem leiðir til ákvörðunar sem kveður á um lögbrot. Þegar menn eru í þessum gír að ná í atkvæði ber kappið menn kannski svolítið áfram,“ segir Hrafnkell.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert