„Leiðinlegt að koma að þessu“

12.000 nýklaktir kjúklingar, minni en þeir sem sjást hér, drápust …
12.000 nýklaktir kjúklingar, minni en þeir sem sjást hér, drápust í brunanum. Mynd úr safni. AFP

12.000 nýlega klaktir kjúklingar drápust vegna eldsvoða á kjúklingabúinu Oddsmýri á Hvalfjarðarströnd í gær. Björn Fálki Valsson, kjúklingabóndi á Oddsmýri, segir kjúklingana flesta hafa verið dauða vegna elds eða reyks þegar hann kom að húsinu og að aðkoman hafi verið leiðinleg.

Talið er að kviknað hafi í út frá hitablásara. „Þegar ég kíkti þarna inn var mikill reykur og eldur á nokkrum stöðum,“ segir Björn í samtali við mbl.is, en hann sjálfur var lagður inn á sjúkrahúsið á Akranesi í gær vegna gruns um reykeitrun.

Eldsins varð vart um klukkan þrjú síðdegis í gær.

„Það vildi svo vel til að það var maður sem var að moka snjó hjá mér sem er í slökkviliðinu og hann gat talað beint við slökkviliðsstjórann og útskýrt þetta fyrir honum.

Viðbragðsaðilar frá Akranesi voru snöggir á staðinn og ekki tók langan tíma að ráða niðurlögum eldsins, en þó lifði í einhverjum glæðum á milli þilja og kalla þurfti slökkviliðið aftur að Oddsmýri um klukkan sex í gærkvöldi.

Tjónið á húsinu sjálfu er ekki mikið, að sögn Björns, en verra er með dýrin.

„Þegar dýr brenna inni eða kafna úr reyk er það ekki gott. Það er bara mjög slæmt. Það er það. Það er leiðinlegt að koma að þessu,“ segir Björn.

Að sögn Björns tók lögreglan hitablásarann sem talið er að rekja megi eldsupptökin til og ætlar að rannsaka hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert