Logi valdur að endurkomu Jóns Axels

Logi Bergmann Eiðsson í Magasíninu.
Logi Bergmann Eiðsson í Magasíninu. K100

„Jón Axel á sér magnaða sögu í útvarpi,“ segir Logi Bergmann Eiðsson sem segist ánægður með að vera valdur að endurkomu Jóns Axels í útvarp. Jón er einn þáttastjórnenda morgunþáttarins Ísland vaknar á K100.

Logi Bergmann var gestur Huldu og Hvata í Magasíninu á K100. Þegar talið barst að nýja morgunþætti stöðvarinnar, sem verður á dagskrá þar til nýr þáttur Loga fer í loftið, rifjaði Logi upp að Jón Axel og Gulli Helga hafi bylt íslensku útvarpi með þættinum Tveir með öllu, sem var fyrst á dagskrá FM957 og síðar Bylgjunnar.

„Fyrir mjög marga var þetta loksins alvöruútvarp, lifandi, uppákomur og alls konar vesen,“ sagði Logi.

Þegar Logi var spurður að því hvort hann kviði því að taka við keflinu af Jóni Axel og félögum í morgunþætti K100 hló hann og svaraði: „Jú, ég er pínu órólegur með þetta. En ég held ég ráði nú alveg við þetta, að vakna að minnsta kosti.“

Viðtalið við Loga má sjá í spilaranum að neðan en í því var einnig rifjað upp frægt hláturskast úr fréttatíma Stöðvar 2 þegar starfsfélagar Loga reyndu að slá hann út af laginu með því að setja nafn erlends þjóðhöfðingja mjög oft inn í fréttatexta sem Logi las.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert