Súðavíkurhlíð ekki opnuð í bráð

Mikið hefur snjóað á norðanverðum Vestfjörðum og er óvissustig vegna …
Mikið hefur snjóað á norðanverðum Vestfjörðum og er óvissustig vegna snjóflóða enn í gildi. Mynd úr safni. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Óvissustig vegna snjóflóða er enn í gildi á norðanverðum Vestfjörðum. Vegurinn um Súðavíkurhlíð er enn þá lokaður vegna snjóflóðahættu og ekki útlit fyrir að hægt verði að opna hann í bráð.

„Við erum stöðugt að fylgjast með þessu, hvernig dýpkar á snjóþykktarmælunum og fylgjast með veðrinu,“ segir Sveinn Brynjólfsson á snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

Ekki er talin hætta á snjóflóðum í byggð eins og staðan er núna, en óvissustigið er enn í gildi sem þýðir að fylgst er náið með stöðunni.

„Við tökum bara klukkutíma fyrir klukkutíma í þessu,“ segir Sveinn.

Nýjustu veðurspár benda að sögn Sveins til þess að úrkoman virðist ætla að hanga aðeins lengur yfir en gert var ráð fyrir og fara hægar yfir.

„Það ætlar svolítið að teygjast á því fram á daginn og það verður samfelld vöktun á þessu í dag,“ segir Sveinn.

Ekkert flogið og fjallvegir ófærir

Ekki hefur verið flogið til Ísafjarðar í dag og samkvæmt vef Air Iceland Connect er það ekki á áætlun.

Þá er ófært um Steingrímsfjarðarheiði og fleiri fjallvegi á Vestfjörðum, samkvæmt vef Vegagerðarinnar.

Hvöss norðlæg átt er á Vestfjörðum með talsvert mikili ofankomu og á vef Veðurstofunnar er gul viðvörun í gildi til morguns. Viðbúið er að skyggni verði mjög takmarkað og akstursskilyrði erfið, jafnvel ófært á köflum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert