Sáum strax að flugstöðin er sprungin

Boeing 737-800-vél frá Enter Air brunar fram hjá flughlaðinu á …
Boeing 737-800-vél frá Enter Air brunar fram hjá flughlaðinu á Akureyrarflugvelli eftir að hún lenti í hádeginu á föstudaginn. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þegar 430 farþegar voru komnir í flugstöð Akureyrar á föstudaginn eftir jómfrúarflug Enter Air til Akureyrar til viðbótar við innanlandsflugfarþega kom strax í ljós að aðstaðan á vellinum var ekki nægjanleg fyrir allan þennan fjölda. „Við sáum strax að flugstöðin er sprungin.“ Þetta sagði Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri markaðsstofu Norðurlands, á fundi Isavia um framtíð innanlandsflugs.

Þegar farþegar komu úr fluginu þurfti meðal annars að fá strætisvagn fyrir utan flugstöðvarbygginguna til að halda hita á fólki meðan það beið eftir að komast í gegnum öryggisleit og vegabréfaskoðun.

Segir að blindflugsbúnaður hefði komið að notum

Arnheiður nefndi á fundinum að fagnaðarlæti norðanmanna vegna fyrstu flugferðarinnar hefðu varla verið þögnuð í gær þegar þeir hafi heyrt vél Enter Air sveima yfir vellinum, en að lokum tók flugmaðurinn ákvörðun um að fljúga til Keflavíkur og lenda þar.

Sagði hún að með þessu væru íbúar Norðurlands að missa viðskiptavini sem kæmu með beinu flugi að utan og sagði hún að blindflugsbúnaður á vellinum hefði getað komið í veg fyrir þetta atvik. Slíkur búnaður kosti um 70-100 milljónir, en meðan hann sé ekki til staðar sé erfitt að treysta á millilandaflugið.

Þá fór hún yfir hluta innanlandsflugs frá sjónarhorni notanda, en sjálf sagðist Arnheiður ferðast mikið suður og til baka vegna vinnunnar. Gagnrýndi hún núverandi kerfi og sagði það ekki gera neitt til að byggja upp flugið.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri markaðsstofu Norðurlands,
Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri markaðsstofu Norðurlands, mbl.is

Sagði hún helstu notendur flugsins í dag vera stórnotendur sem oftast væru að fara vegna vinnu á milli staða. Þeir væru einnig oftast að fljúga á vegum ríkisins. Þá væri einnig erlendum ferðamönnum að fjölga mikið. Kom fram á fundinum að Air Iceland connect teldi erlenda ferðamenn helsta vaxtamöguleika flugsins hér.

Verðið fyrir almenna notendur of hátt

Verðið fyrir flug væri hins vegar það hátt að það væri ekki fyrir almenna notendur. Benti hún á að fullt verð fram og til baka frá Reykjavík út á land gæti verið á bilinu 43 þúsund upp í 54 þúsund ef ekki væri bókað með miklum fyrirvara. Reyndar væru til staðar alls konar afsláttarkjör fyrir stórnotendur, en fyrir almenna notendur væri verðið of hátt. „Það þarf að gera þetta þannig að hægt sé að fá betra verð,“ sagði hún á fundinum.

Arnheiður kallaði einnig eftir skýrari skilaboðum frá stjórnvöldum varðandi minni flugvelli á landsbyggðinni. Sagði hún að þegar horft væri til Norðurlands væri aðallega horft til Akureyrar, en flugvellirnir á Sauðárkróki og við Húsavík væru einnig í smá notkun. Þá virtust allir gleyma flugvöllunum á Þórshöfn, í Grímsey og á Siglufirði. „Ætlum við að leggja þessa flugvelli niður?“ spurði hún og bætti við að fyrir þá sem væru að markaðssetja landsbyggðina þyrfti að liggja fyrir hvaða þjónustu væri hægt að bjóða en ekki að standa alltaf frammi fyrir stefnuleysi.

Flugvöllurinn á Akureyri
Flugvöllurinn á Akureyri mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert